Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

326. mál
[16:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er eðlilegt að spurt sé um áhrif á gjaldeyrinn okkar þegar er verið að auka við erlendar fjárfestingar. Það er aðeins komið inn á þetta í skýrslu fyrrverandi seðlabankastjóra. Hérna skiptir töluvert miklu máli að þetta eru þó ekki það háar fjárhæðir sem við erum að tala um að auka við á næstu árum og sá mikli gjaldeyrisvaraforði sem við höfum byggt upp undanfarin ár stendur á móti sem mjög traust stoð vegna þess. Það er því ekki ástæða til að hafa sérstakar áhyggjur af þessu, fyrir utan það að við höfum verið með ágætis viðskiptajöfnuð alveg fram á hið síðasta. Þar af leiðandi má segja að samfélag okkar sé orðið miklu öflugra. Við erum ríkari. Við erum með nettó eignastöðu í dag í útlöndum, ólíkt því sem áður var. Að öllu þessu virtu er ekki ástæða til að hafa áhyggjur af neikvæðum afleiðingum þessa (Forseti hringir.) en við þurfum að velta þessu fyrir okkur og m.a. spyrja okkur hvaða áhrif það hefur þegar þessar eignir ætla að fara að flæða aftur inn í hagkerfið.