Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

326. mál
[16:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eftir samráðsferlið var gerð breyting á frumvarpinu og þessar heimildir voru að nokkru víkkaðar, þó að ekki hafi verið gengið jafnlangt og var óskað eftir af sumum umsagnaraðilum. Svarið við þessu er í raun og veru um leið ástæðan fyrir því að við létum taka þetta sérstaklega út. Það er ástæða fyrir því að við gripum ekki bara til þess með skömmum fyrirvara að mæla með stórauknum heimildum til erlendrar fjárfestingar. Við vildum fara ofan í saumana á áhrifum þess að gera það og létum þess vegna útbúa þessa skýrslu og fylgjum í öllum megindráttum þeim ráðleggingum sem við fengum frá skýrsluhöfundi eftir að hafa lagst mjög gaumgæfilega yfir þetta að teknu tilliti til ýmissa annarra þátta sem varða framtíðaráhættu í kerfinu en líka hagrænna þátta sem getur verið skynsamlegt að taka tillit til. (Forseti hringir.) Frelsi lífeyrissjóðanna er eitt en síðan er frelsi lífeyrisþeganna auðvitað annað mál sem við getum gjarnan talað um einhvern tíma við tækifæri.