153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga.

[10:33]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Fyrst vil ég nú segja að þróunin í málefnum fatlaðra og kostnaður vegna þess málaflokks er efni í alveg sérstaka umræðu. Eftir margra ára undirbúning var tekin ákvörðun á Alþingi um að auka við þjónustu við fatlaða á Íslandi. Eftir að sá málaflokkur hafði verið færður yfir til sveitarfélaganna árið 2011 og við lagabreytinguna sem tók gildi árið 2018 var áætlað að heildarkostnaður sveitarfélaganna vegna þeirra breytinga sem þá voru gerðar og vörðuðu einkum fleiri NPA-samninga og húsnæðisúrræði, fyrir utan það sem sneri að atvinnuúrræðum og frístundastuðningi, myndi nema um 967 milljónum. Nú segja sveitarfélögin okkur að það vanti 13 milljarða upp á. Kostnaður sem átti að vera innan við 1 milljarður er sem sagt 14 milljarðar. Og þó er ekki enn búið að gera einhverja 80 NPA-samninga sem munu kosta aðra 2 milljarða. Eftir margra ára vinnu ríkis og sveitarfélaga var niðurstaðan hér, eftir nokkrar umferðir á Alþingi vegna þess að málið var ekki afgreitt í einni umferð, að kostnaðurinn væri innan við milljarður fyrir sveitarfélögin, en það stefnir í að hann verði 16 milljarðar á ári. Þetta hlýtur að vera tilefni í alveg sérstaka umræðu. En við höfum að sjálfsögðu og augljóslega öll metnað til þess að gera mjög vel í þessum málaflokki og ekki er vafi á því að þjónustan hefur aukist og batnað.

Þegar spurt er að því hvernig mér lítist á þær hugmyndir sem innviðaráðherra hefur viðrað þá er auðvelt að svara því vegna þess að þær eru komnar úr fjármálaráðuneytinu og voru teknar upp í samskiptum fjármálaráðuneytis og innviðaráðuneytis. Við eigum eftir að fara nánar yfir þær í ráðherranefnd um ríkisfjármál og þá verður hægt að svara öllum þeim spurningum sem hér er velt upp um áhrif á afkomu ríkissjóðs. En ljóst er að tilfærsla á tekjum milli ríkis og sveitarfélaga mun ekki hafa nein áhrif á afkomu hins opinbera.