Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

verkferlar um viðbrögð við ógnandi hegðun og ofbeldi meðal barna og ungmenna.

17. mál
[15:09]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi bara nota tækifærið og koma hingað upp vegna þess að ég held að ég deili þeirri tilfinningu sem fram kom í máli hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur og væntanlega með öllum hér inni hvað þetta eru sláandi umræður og fréttir sem við höfum fylgst með, sér í lagi í gærkvöldi í sjónvarpinu. Þetta er afar alvarlegt ástand sem hefur skapast í samfélaginu og ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að vinna bug á því með öllum tiltækum ráðum. Mig langar að spyrja hv. þingmann svona í samhengi þess að tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Sú vinna verði unnin í framhaldi af vinnu starfshóps mennta- og barnamálaráðuneytisins um mótun leiðbeininga fyrir starfsfólk skóla í tengslum við framkvæmd reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum.“

Deilir hv. þingmaður þeirri skoðun sem fram kom m.a. í einu af þeim viðtölum sem voru á skjánum í gær, við fulltrúa að ég held starfsmanna Barnaheilla, að þetta sé raunar samfélagslegt verkefni, ekki bara eitthvað sem snýr að skólum og skólastarfi þó að birtingarmyndin sé sannarlega þar? Það sé samfélagslegt verkefni að vinna bug á því ofbeldi og þeirri ógnandi hegðun og hatursorðræðu sem við höfum séð í garð hinsegin fólks. Hefur hv. þingmaður einhverjar sérstakar hugmyndir um það?