153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[15:12]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér er spurt um kærunefnd útlendingamála. Já, það er að mínu mati niðurstaða kærunefndar að veita viðbótarvernd sem gefur réttindi hér til verndar í fjögur ár. Ef það er borið saman við vernd af mannúðarástæðum eins og öll önnur ríki Evrópu veita fólki frá Venesúela þá er það til eins árs. Það eru líka til viðbótar félagsleg réttindi sem felast í svokallaðri viðbótarvernd. Eins og ég sagði áðan þá eru menn ekki endilega sammála nefndinni en nefndin hefur síðasta orðið eins og staðan er og menn hafa verið að rýna í niðurstöðu hennar til að sjá hvort það sé tilefni til að bregðast við með einhverjum hætti. (EÁ: Er það í samræmi við …?) En það er alveg ljóst að félagslegu réttindin falla niður ef viðkomandi hefur ekki sýnt samvinnu og farið úr landi. Það er hægt að fara með fólk úr landi, vísa því úr landi í fylgd lögreglu og það er svo sem gert hér reglulega þannig að það er það úrræði sem við þurfum að beita. En best er auðvitað að hægt sé að gera þetta í samvinnu við fólk (Forseti hringir.) og á þeim forsendum sem við bjóðum fólki að fara, til að mynda með þeim styrkjum sem við látum fylgja til þess að það geti komið undir sig fótunum á nýjum stað.