153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[23:20]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Í ljósi þess að klukkan er orðin 20 mínútur yfir 11 og örfáir eftir í þingsalnum, og ég veit að þetta hefur verið mikið spennuatriði, þá er kannski ástæða til að upplýsa hverjir fyrirvararnir voru. Einstaka þingmenn kunna að setja mismunandi fyrirvara en aðalfyrirvarar þingflokks Sjálfstæðisflokksins lutu að verndarmálunum svokölluðu, þ.e. breytingunum sem gerðar eru á frumvarpinu frá því að það var lagt fram í vor og þangað til það er lagt fram núna. Margir þingmenn myndu vilja sjá okkur fara sömu leið og við teljum hin Norðurlöndin vera að gera, að það sé almennt þannig með verndarmálin að þeim sem eru með vernd í öðru ríki sé vísað frá. En ekki er um neina almenna breytingu á því að ræða í þessu frumvarpi og áfram vísað í það að ef uppi eru sérstakar ástæður, sérstök tengsl við landið og annað, þá geti slíkir aðilar fengið málsmeðferð.