Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 23. fundur,  26. okt. 2022.

ÍL-sjóður.

357. mál
[16:54]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er aftur þetta með framtíðarkynslóðirnar. Við spöruðum framtíðarkynslóðunum til að mynda tíu ár af innviðauppbyggingu. Við sjáum það nú víða í samfélaginu. En 150 milljarða kr. sparnaður, það var yfirlýsingin frá hæstv. fjármálaráðherra. Ég á bara mjög bágt með að trúa að hv. þingmaður geti ekki tekið undir það að það að ramma þetta inn sem einhvers konar sparnað sem bitni á ekki neinum öðrum sé villandi framsetning. Og líka að það að ramma umræðuna þannig inn að við séum að tala um einhverja andlitslausa kröfuhafa sem ríkissjóður sé að hrista af sér í þágu skattborgara sé ekki villandi framsetning. Þetta eru lífeyrissjóðir þjóðarinnar. Þetta eru lágáhættufjárfestingar. Það er líka fullt af ungu fólki sem greiðir í lífeyrissjóði. Og hvað er mesta útgreiðslan sem fólk fær úr lífeyrissjóðunum? Jú, það er ávöxtun af því sem þú gerir til að byrja með. Þannig að það sem kemur fyrir lífeyrissjóðina núna á fyrstu árum lífeyrisgreiðslna þessa fólks hefur líka áhrif á framtíðarkynslóðir. Þetta er ekki eðlileg uppsetning að tala eins og við séum að eiga við einhverja stóra, vonda, mögulega erlenda kröfuhafa. Þetta eru innlendir aðilar. Þetta er leiðin sem var farin inn í þessa umræðu og það er það sem er óeðlilegt við þetta.

Hver mánuður skiptir máli, er sagt. Við erum aftur komin hérna í sömu umræðu. Hver mánuður af greiðsluflæði til hverra? Til hverra? Þetta var fjármagn sem var bundið í samningum. Það vita allir sem einhverja þekkingu hafa á því hvernig skuldabréf eru gefin út að þú ert að kaupa greiðsluflæði í framtíðinni. Þú ert ekki að kaupa sérstaklega óuppgreiðanleg bréf sem þú getur ekki greitt inn á með með það fyrir augum að það muni einhver koma inn og stytta bréfin þín og ákveða að þú fáir ekki greiðsluflæði af þeim síðar. Þannig að umræðan um að þetta sé einhvers konar sparnaður í þágu skattborgara er mjög villandi. Það er fólk sem finnur fyrir þessu á hinni hliðinni og það eru bara venjulegir Íslendingar.