Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

Rannsókn á Samherjamálinu og orðspor Íslands.

[11:41]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Frú forseti. Það er með ólíkindum að hlusta á stjórnarliða í þessari umræðu, að þau skuli halda því fram í fúlustu alvöru að það sé eitthvað óeðlilegt að Alþingi Íslendinga ræði hér á almennum nótum um vanfjármögnun ákæruvaldsins á Íslandi, um orðsporsáhættu vegna þess og um yfirlýsingar frá yfirmanni vinnuhóps OECD gegn mútubrotum. Það er með ólíkindum að hlusta á þetta. Auðvitað er Alþingi Íslendinga nákvæmlega rétti vettvangurinn til að ræða um einmitt þessi mál, þó það nú væri, og það er til marks um alveg ótrúlega meðvirkni gagnvart stórútgerðinni á Íslandi að halda öðru fram. Almenningur stendur í þakkarskuld við blaðamennina sem hafa varpað ljósi á framferði Samherjastjórnenda í Namibíu og á Íslandi.

Ég vil nota tækifærið í þessari umræðu til að fordæma það úr þessum ræðustól hvernig annars vegar hæstv. fjármálaráðherra og hins vegar aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, æðsta yfirmanns lögreglu og ákæruvalds í þessu landi, hafa stigið fram og tjáð sig með mjög glannalegum hætti um tiltekið sakamál sem hefur verið til rannsóknar hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, hvernig þeir hafa skammast í sakborningum á samfélagsmiðlum og hæðst að þeim og í raun hvatt til tiltekinna rannsóknaraðgerða. Það er nefnilega alveg hárrétt sem hv. þm. Óli Björn Kárason sagði hér áðan: Við erum komin á hála braut þegar stjórnmálamenn reyna með beinum eða óbeinum hætti að hafa áhrif á framgang sakamála. Undir þetta má taka hjá honum og hann hlýtur að hafa verið að beina þessum orðum að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra og aðstoðarmanni dómsmálaráðherra. Það er nefnilega mjög óvenjulegt að valdhafar eða viðhengi þeirra tjái sig með svona afgerandi hætti um tiltekin sakamál. Við erum líka á mjög skrýtnum stað þegar valdhafar gerast þátttakendur í ófrægingarherferð (Forseti hringir.) gegn blaðamönnum sem afhjúpar spillingu, þegar formaður stærsta stjórnmálaflokks landsins og samherjar hans í stjórnarliðinu kynda (Forseti hringir.) undir gróusögum um að sakborningar í tilteknu máli hljóti að vera grunaðir um eitthvað annað og meira heldur en það sem fram hefur komið og þeim hefur sjálfum verið greint frá. (Forseti hringir.) En þetta er það sem blaðamennirnir sem hafa rannsakað og varpað ljósi á þessi mál hafa mátt þola. Það er ámælisvert. Ég fordæmi það.

(Forseti (DME): Ég minni hv. þingmenn á að virða ræðutímann.)