Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

Staðan í Íran.

[13:56]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka ráðherra fyrir viðbrögð í þessu máli. Þau eru lofsverð. Yfirvöld eiga aldrei að beita borgara sína ofbeldi, aldrei. Það er lína sem við eigum öll að draga í sandinn gagnvart öllum stjórnvöldum alls staðar. Vestræn stjórnvöld bera þó nokkra ábyrgð á ástandinu í Íran, ekki á byltingunni sem er á forsendum Írana sjálfra og er undir yfirskriftinni: Kona, líf, frelsi. Mahsa Amini, sem var af kúrdískum uppruna, mátti ekki einu sinni heita nafninu sínu, Jina Amini, af því að hún klæddist ekki rétt. Hér á þingi hef ég meira að segja verið gagnrýndur fyrir að klæðast ekki rétt, vera ekki í jakka í ræðustól. Meira að segja hér erum við með brot af því stjórnlyndi sem klerkastjórnin í Íran býr yfir en hún framfylgir sinni sannfæringu með því að myrða fólk.