Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

markviss öflun gagna um líðan, velferð og efnahag eldra fólks.

298. mál
[17:16]
Horfa

Flm. (Ingibjörg Isaksen) (F):

Frú forseti. Ég flyt hér í dag þingsályktunartillögu um markvissa öflun gagna um líðan, velferð og efnahag eldra fólks. Flutningsmenn þessarar tillögu eru ásamt mér hv. þingmenn Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Ágúst Bjarni Garðarsson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Jóhann Friðrik Friðriksson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Tómas A. Tómasson og Oddný G. Harðardóttir.

Frú forseti. Fyrir okkur sem samfélag er mikilvægt að huga að, með sem allra besta móti, eldri þegnum þessa lands en svo að hægt sé að gera það með markvissum og skilvirkum hætti er nauðsynlegt að hafa við höndina markvissar og tímanlegar upplýsingar um líðan og velferð eldra fólks á hverjum tíma fyrir sig. Eldra fólk er ólíkur hópur með ólíkar þarfir og það sem hentar einum þarf ekkert endilega að henta öðrum. Til þess að geta verið betur í stakk búin til að þjónusta þennan sístækkandi hóp eldra fólks þurfum við að huga að því að framsetning upplýsinga sé samræmd því að aðeins þannig getum við náð fram heildarmynd af stöðu eldra fólks á hverjum tíma fyrir sig. Þegar við höfum aðgang að slíkum gagnabanka geta stjórnvöld beint sjónum sínum að þeim verkefnum sem brýnast liggja við og forgangsraðað þá í rétta átt.

Því legg ég fram svohljóðandi tillögu:

„Alþingi ályktar að fela félags- og vinnumarkaðsráðherra að útbúa mælaborð með það að markmiði að halda utan um og safna tölfræðilegum upplýsingum um líðan, velferð og efnahag eldra fólks og ná þannig fram heildarmynd af almennri stöðu aldraðra í samfélaginu svo hægt sé að forgangsraða verkefnum sem brýnt er að takast á við.“

Í dag liggja ekki fyrir þessar markvissu, samræmdu og tímanlegu upplýsingar um líðan, stöðu og velferð eldra fólks. Önnur lönd hafa sum hver sett upp rafræn mælaborð eða gagnvirkar heimasíður sem birta tölfræði um ýmsa þætti er varða eldra fólk, velferð þess og líðan. Meðal þess sem slíkar upplýsingaveitur varpa ljósi á eru fjöldatölur, kynjahlutfall í hverjum aldurshóp, hve margir búa einir eða með öðrum, hvort þeir búi í eigin húsnæði eða leiguhúsnæði, fjöldi og aldur þeirra sem leita t.d. á bráðamóttöku, fjöldi þeirra sem fær tiltekna aðstoð eða þjónustu hjá sveitarfélagi eða ríki og svo má áfram telja.

Við þurfum að geta mælt aðstæður eldra fólks og við þurfum að nýta mælingar til að marka stefnuna til framtíðar, vinna að aðgerðaáætlun og úthluta fjármagni. Þá skiptir einnig verulegu máli að geta fylgst með hvort þær aðgerðir sem ráðist er í beri tilætlaðan árangur. Með öðrum orðum, við verðum að geta mælt til að geta bætt. Sem liður í því að endurskoða félagslega umgjörð barna á Íslandi þróaði Kópavogsbær mælaborð í samstarfi við UNICEF og félagsmálaráðuneytið í tengslum við innleiðingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og verður verkefnið Barnvænt sveitarfélag. Markmiðið með mælaborðinu var að halda utan um helstu tölfræðilegu gögnin er varpa ljósi á líðan, velferð og réttindi barna á Íslandi. Mælaborðið hefur hlotið mikið lof og sýnt að það varpar ljósi á stöðu barna á Íslandi. Flutningsmenn telja að horfa megi til þessa mælaborðs og útbúa sérstakt mælaborð sem hefur það að markmiði að kortleggja líðan, stöðu og velferð eldra fólks. Með mælaborði sem þessu má svo greina líðan og velferð eldra fólks og ná fram heildarmynd af almennri stöðu þess í samfélaginu með það að markmiði að beina sjónum stjórnvalda að þeim verkefnum sem brýnt er að takast á við á hverjum tíma fyrir sig og forgangsraða hverju sinni.

Með nýju rafrænu mælaborði um líðan og velferð mætti gera ráð fyrir að almenningur, notendur og stjórnvöld hefðu betra aðgengi að raunupplýsingum um það sem er að gerast og hvað kallar á rétta úrlausn samfélagsins á hverjum tíma. Þá samdi félags- og barnamálaráðuneytið í lok árs 2020 við Akureyrarbæ um þróunarverkefni við að undirbúa og kortleggja uppsetningu á mælaborði á líðan og velferð eldra fólks með hliðsjón einmitt af mælaborði barna. Það er afar mikilvægt að taka þetta verkefni áfram og upp á næsta stig. Svo að stjórnvöld á Íslandi geti sett sér áætlun um þjónustu við eldra fólk þurfum við að kanna stöðu þess með skilmerkilegum hætti og til að hægt sé að bregðast réttilega við þarf að byggja á upplýsingum og staðreyndum um stöðu, líðan og velferð eldra fólks svo að ákvarðanir á hverjum tíma skili sér á endanum í eflingu lífsgæða eldra fólks.

Þá er það staðreynd að breytingar á aldurssamsetningu þjóðarinnar er ein af stóru áskorunum íslensks samfélags sem og annarra samfélaga. Fjöldi eldra fólks eykst og hlutfall eldra fólks af heildarmannfjölda fer ört hækkandi á næstu árum og áratugum. Samfélagið þarf að vera tilbúið til að takast á við sístækkandi hóp eldra fólks með það að markmiði að koma til móts við þarfir þess.

Þessi tillaga sem ég mæli fyrir hér í dag er í samræmi við stjórnarsáttmála Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna en í honum kemur m.a. fram að vinna eigi að, með leyfi forseta:

„…aðgerðaáætlun til fimm ára í samstarfi við sveitarfélög, samtök eldri borgara og þjónustuaðila, jafnt opinberra og sjálfstætt starfandi. Skipuð verði verkefnisstjórn í breiðu samráði til að vinna að þessum markmiðum og fylgja eftir þeirri vinnu sem unnin hefur verið, m.a. með drögum að frumvörpum og þingsályktun. Einstaklingurinn á að vera hjartað í kerfinu og hafa aðgang að samþættri þjónustu, heimahjúkrun og stuðningsþjónustu.“

Mælaborð um líðan, velferð og efnahag eldra fólks styður við þessar hugmyndir.

Frú forseti. Ég vona innilega, þar sem þetta mál er snemma komið inn á þing, að hv. velferðarnefnd taki málið föstum tökum. Við þurfum að gera betur við eldra fólk þessa lands því að það á það svo sannarlega skilið.