Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

umfjöllun nefndar um brottvísanir hælisleitenda.

[14:07]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Í 3. mgr. 11. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis segir:

„Berist ósk um að tiltekið mál verði tekið á dagskrá frá fjórðungi nefndarmanna eða framsögumanni máls, sbr. 2. mgr. 15. gr. þingskapa, skal verða við því svo fljótt sem kostur er. Formaður skal gefa viðhlítandi skýringar ef dregst umfram þrjá virka daga að setja málið á dagskrá fundar.“

Á fundi allsherjar- og menntamálanefndar í morgun lagði ég fram eftirfarandi bókun, með leyfi forseta:

Gerðar eru alvarlegar athugasemdir við stjórn nefndarinnar af hálfu formanns. Á síðasta fundi nefndarinnar, þann 3. nóvember 2022, kom fram skýr krafa frá þremur nefndarmönnum að taka til umfjöllunar nýafstaðnar brottvísanir hælisleitenda. Þegar slík beiðni er lögð fram er formanni nefndar skylt að boða til fundar. Skýrt var að beiðni laut að því að boða skyldi dómsmálaráðherra, Útlendingastofnun og ríkislögreglustjóra á fundinn og var jafnframt farið fram á að sendar yrðu tilteknar spurningar til þessara aðila fyrir fundinn til að fundurinn yrði árangursríkur og tóku fundarmenn, m.a. formaður, undir að það yrði gagnlegt. (Forseti hringir.)

Ekki nóg með að formaður hafi vanrækt að boða þessa aðila til fundarins heldur var gerð tilraun til að afmá kröfuna úr fundargerð. (Forseti hringir.) Þá lítur út fyrir að umbeðnar spurningar hafi ekki verið sendar. Ekkert kom fram á fundinum þann 3. nóvember (Forseti hringir.) sem gaf ástæðu til að ætla annað en að formaður myndi bregðast við beiðninni og voru engin mótmæli við henni.