Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

umfjöllun nefndar um brottvísanir hælisleitenda.

[14:24]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F):

Frú forseti. Ég er einn af þeim sem tek mjög alvarlega að við förum eftir starfsreglunum í þinginu og að við reynum eins og við getum að tryggja að þegar koma upp mál sem skipta veigamiklu máli þá geti nefndirnar fengið til sín fólk eins fljótt og auðið er. Ég held að það sé hreinlega kveðið á um það.

Við fengum í morgun mjög góða innsýn, langar mig að segja, í mjög erfitt mál. Ég vil bara taka undir það og minna á að það hefur komið fram hjá formanni nefndarinnar að sannarlega munum við fá ráðherra málaflokksins til okkar til að ræða tiltekið mál — og ekki síður fulltrúa Útlendingastofnunar og ég treysti henni fyllilega fyrir því — svo að innsýn í málaflokkinn og varðandi umrætt mál sé algerlega skýr.