Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

óréttmæti málshöfðunar Alþingis gegn ráðherrum og afsökunarbeiðni.

215. mál
[15:20]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F):

Frú forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka sérstaklega til máls varðandi þetta mál en ég verð að viðurkenna að eftir þær ræður sem hér hafa verið haldnar hef ég verið mjög hugsi. Ég tel tilefni til að taka undir það sem hér hefur komið fram og koma kannski með, frú forseti, nokkra þætti inn í þetta í stóru myndinni. Ég held að hér sé svo sannarlega um prinsippmál að ræða eins og hv. þingmenn hafa nefnt. Í ljósi þess sem var að gerast í samfélaginu á eftirhrunsárunum, sem voru íslensku samfélagi mjög erfið, verður mér hugsað til þess hversu mikilvægt það er að lögin okkar nái utan um og kjarni þá þætti sem snúa að því að aðskilja lög og pólitík. Við sjáum í kringum okkur gjá vera að myndast í pólitík og í einhverjum tilfellum lög eða heimildir til stjórnmálamanna til að nýta sér það í pólitískum tilgangi, samanber það sem er að gerast vestanhafs í Bandaríkjunum, þar sem, að því er virðist, hvor blokk fyrir sig stefnir að því leynt og ljóst að kæra forseta fyrir embættisglöp eftir því hver er við völd hverju sinni. Þetta er, vil ég segja, gríðarlega hættuleg vegferð.

Það er mikilvægt að nefna þetta hér vegna þess að við höfum dæmi, sem hv. þingmenn hafa sérstaklega farið yfir hér, þar sem sannarlega má velta því fyrir sér hvort eitthvað annað hafi búið að baki. Þess vegna koma mér í hug lögin um landsdóm og hversu mikilvægt það er að við setjum ramma utan um löggjöfina okkar sem tryggir að ekki sé hægt að fara í slíka vegferð. Samfélagið tekur breytingum, það gefur oft á bátinn og vissulega ætla ég ekki að gera lítið úr því að hrunið hafi verið okkur öllum mjög erfitt. En það sem stendur upp úr í mínum huga er að það er stór munur á því hvort um ásetning er að ræða eða pólitískar framkvæmdir — eða ekki framkvæmdir, eins og kemur fram í umræddu máli. Þetta snýst um sanngirni og þetta snýst um það að við getum tryggt að hver sem það er sem heldur á völdunum hér á Alþingi á hverjum tíma geti ekki misbeitt þeim á einn eða annan hátt. Þess vegna er þetta sannarlega þverpólitískt mál í mínum huga eins og kom fram í máli flutningsmanns.

Ég vil kannski hnykkja á öðru sem mér kemur líka í hug, og hv. þm. Sigmar Guðmundsson nefndi hér, og það er hvernig við komum að því að leiða til lykta ákveðin stórmál eins og gerðist hér eftir kosningarnar, svokallað talningarmál. Það er að mínu áliti sannarlega ástæða til þess að þingmenn velti fyrir sér á hverjum tíma hvort sú umgjörð sem við setjum okkur sé þannig úr garði gerð að hún geti tekið á breytingum og ágjöf, því sem kann að koma upp í framtíðinni, en einskorðist ekki nákvæmlega við það sem við erum að glíma við á hverjum tíma. Margir þingmenn, eða einhverjir þeirra, ég veit ekki hve margir, hafa beðist afsökunar á því að hafa greitt atkvæði varðandi umrætt mál. Þannig lærum við af mistökum.

Ég tel mikilvægt að þessi þingsályktunartillaga fái góða umræðu í allsherjar- og menntamálanefnd og ég efast ekkert um að svo verði. Ég vil aftur taka undir með þeim sem hér hafa talað og nefna sérstaklega elju flutningsmanns því að mér sýnist málið vera að koma fram í fimmta skipti. Vonandi fær það góða og málefnalega umræðu.