Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

rannsókn á vinnuhælinu á Kleppjárnsreykjum o.fl.

30. mál
[16:53]
Horfa

Flm. (Gísli Rafn Ólafsson) (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Okkur getur greint á um það hversu mikilvæg kynþáttahyggjan var og hversu mikilvæg stéttarkúgunin var; ég held að kannski hafi hvort tveggja verið í gangi þarna. Rétt eins og hv. þingmaður benti á þá er margt órannsakað varðandi kynþáttahyggjuna sem ríkti á þessum tíma, t.d. það hvernig gyðingar voru meðhöndlaðir hér á landi á árunum fyrir stríð og ekki veitt hæli. Varðandi leynd á gögnunum þá afhentu ættingjar Jóhönnu Knudsen Þjóðskjalasafni gögn frá henni árið 1961, það sem talið var að væru persónuleg gögn. Þau voru afhent undir því skilyrði að ekki mætti opna þau í 50 ár. Þegar þau voru opnuð árið 2012 kom í ljós að þarna voru gögn frá ungmennaeftirlitinu. Þetta voru sem sagt ekki persónuleg gögn Jóhönnu heldur, samkvæmt Þór Whitehead prófessor, sem hefur rannsakað þetta, voru þarna gögn ungmennaeftirlitsins sem ekki höfðu fundist áður í neinum skjalasöfnum lögreglunnar eða á Þjóðskjalasafninu. Fræðimönnum var veittur takmarkaður aðgangur að þessum gögnum. Það er spurning hvenær tímabært er að aflétta leyndinni en persónuverndarsjónarmið skipta miklu máli þegar kemur að slíkum málum.