153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

Loftslagsmarkmið Íslands, munnleg skýrsla umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. .

[11:43]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég minnist starfa hæstv. ráðherra í hagræðingarnefndinni á sínum tíma þar sem hann sýndi að honum væri alvara varðandi mikilvægi þess að fara vel með ríkisfé og vonandi munum við sjá þess stað í störfum hæstv. ráðherra nú. En nú er að hefjast 27. lokatilraun Sameinuðu þjóðanna til að koma í veg fyrir heimsendi með fundi í Egyptalandi. Jafnan hefur verið rætt um á þessum fundum að það séu u.þ.b. tíu ár eða áratugur í heimsendi og svo er þessu frestað eftir þörfum. Ég hef ekki orðið var við nýja frestun þannig að líklega er þetta komið niður í sex ár. En hvert er mat hæstv. ráðherra á því hversu langan tíma við höfum til að bregðast við til að koma í veg fyrir heimsendi? Eru það sex ár eða meiri tími? Og mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir minnkandi losun til að mynda Kína og Indlands og annarra landa sem munu eflaust halda því fram að þau eigi heilmikið inni, en án þess að þau lönd séu tekin með í reikninginn næst varla mikill árangur?