153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

Loftslagsmarkmið Íslands, munnleg skýrsla umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. .

[12:40]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil bara nota tækifærið og þakka hv. þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu. Það segir sig sjálft að á tveimur mínútum næ ég ekki að fara yfir alla þá punkta sem hér komu fram. Það sem mér finnst hins vegar standa upp úr er það að mér finnst umræðan hér í þingsal alltaf verða dýpri og ég er ekki að biðja hv. þingmenn að vera sammála um alla hluti, alls ekki, ég held að mikilvægt sé að menn séu gagnrýnir, en hins vegar finnst mér ekki rétt þegar hér er komið fram og sagt að Ísland hafi ekkert fram að færa. Það sem við höfum fram að færa og einkennir okkur er það að við höfum notað græna, íslenska, endurnýjanlega orku miklu lengur en aðrir og getum verið mjög þakklát þeim sem á undan gengu og fóru í orkuskipti eitt og orkuskipti tvö, ekki bara út af því að það gerir það að verkum að við byggjum þá á sterkari grunni, bæði hvað varðar loftslagsmálin og umhverfismálin heldur sömuleiðis er það efnahagsmál og þjóðaröryggismál. Núna erum við að fara í orkuskipti þrjú eins og við vitum, og þar þurfum við að vanda okkur. En við þurfum hins vegar að gera það til að ná tilsettum árangri og ég hvika ekki frá því að þau markmið sem við erum með eru alveg einstaklega metnaðarfull. Mér fannst nú flestir hv. þingmenn nefna það réttilega að við megum hafa okkur öll við ef við ætlum að ná árangri á því sviði. Það sem við getum lært af öðrum er mjög margt og ég held að við getum gert miklu betur þegar kemur að hringrásarhagkerfinu og við þurfum að gera það mjög hratt. Síðan er mjög margt sem hér hefur verið nefnt og ég get ekki farið yfir sem snýr að ræktun lands og öðru slíku sem við höfum náð árangri í en við þurfum að gera mikið meira.

Virðulegur forseti. Að lokum vil ég bara aftur þakka hv. þingmönnum fyrir góða þátttöku og ég vonast til að fá að ræða þessi mál oft og djúpt hér í þingsal vegna þess að það skiptir máli.