153. löggjafarþing — 30. fundur,  14. nóv. 2022.

Sjúkrahúsið á Akureyri.

[15:41]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Virðulegi forseti. Sjúkrahúsið á Akureyri er hornsteinn í samfélaginu okkar fyrir norðan, einn fjölmennasti vinnustaður landsbyggðarinnar og í senn kennslusjúkrahús, vísindastofnun og varasjúkrahús landsins sem starfar undir skýrum merkjum um heilsueflandi og eftirsóknarverðan vinnustað. Þar starfa um 700 starfsmenn og heildarvelta er yfir 10 milljarðar árlega. Sjúkrahúsið veitir almenna og sérhæfða heilbrigðisþjónustu með áherslu á bráðaþjónustu og helstu sérgreinameðferðir sem annað tveggja sérgreinasjúkrahúsa landsins. Legu- og dagdeildarrými eru í dag um 140 og göngudeildarþjónusta er vaxandi þáttur starfseminnar; má nefna krabbameinsþjónustu, blóðskilun og göngu- og geðdeildarþjónustu, svo fátt eitt sé nefnt.

Stærsta verkefnið við Sjúkrahúsið á Akureyri á næsta ári er bygging á nýrri legudeildarálmu þar sem skjólstæðingum sjúkrahússins og starfsfólki verður boðin nútímaleg aðstaða. Þessi áform hafa verið samþykkt af stjórnvöldum og hafa fyrstu skref í þarfagreiningu og hönnun verið stigin. Áætla má að stærð álmunnar verði allt að 10.000 fermetrar og kostnaður er í dag áætlaður á milli 9 og 10 milljarðar. Í fyrri áætlun var stefnt að verklokum árið 2026 en miðað við nýja fjármálaáætlun sem var lögð fram í vor og hvernig við erum að ræða fjárlögin, þá er verið að tala um 2027 eins og áætlanir standa nú.

Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra um hvernig mál standi varðandi verkþætti, framkvæmd verksins og framkvæmdaáætlun og hvenær hann sjái fyrir sér verklok framkvæmdarinnar.