Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

útboð á rekstri heilsugæslustöðvar á Akureyri.

42. mál
[18:22]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég sá mér ekki annað fært en að veita hv. þingmanni andsvar. Þessi mýta um betri þjónustu og styttri biðlista með því að einkavæða allt er auðvitað löngu fallin. Við höfum verið að fara þessa leið í Reykjavík og það heyrist mikið frá einkareknu heilsugæslunum um peningaleysi og að það vanti meiri stuðning og annað. Ég held að við séum að snúa málunum algerlega á hvolf. Ég ætla að þakka hv. þm. Jakobi Frímanni Magnússyni fyrir sitt andsvar áðan af því að þar hitti hann naglann lóðbeint á höfuðið varðandi þessa stöðu í samfélaginu. Við erum alltaf að bera saman epli og appelsínur og ætlum að fá út úr því eitthvert vitrænt svar. Staðan er auðvitað ekki sú að heilbrigðiskerfið, hið opinbera ríkisrekna heilbrigðiskerfi, sé algjörlega ómögulegt. Staðan er hins vegar sú að samsetning þjóðarinnar og kröfur okkar hafa algerlega breyst. Það eru ekkert svo mörg ár eða áratugir síðan að það var ekki svo að önnur hver manneskja milli fimmtug og sextugs færi í liðskiptaaðgerð en núna er það svolítið þannig. Við viljum halda heilsu lengur. Við viljum geta notað kraft, þor og þrek til að sinna lífinu lengur en áður var og til þess þarf auðvitað betri, fjölbreyttari og sterkari þjónustu. Það segir ekkert um að hið opinbera heilbrigðiskerfi sé ekki nógu gott.

Mig langar að spyrja út í mönnunarvandann á landsbyggðinni. Hvaðan heldur hv. þingmaður að mannauðurinn komi sem á að fara inn í einkareknu stöðvarnar?