153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

leiðir í orkuskiptum.

[10:58]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svarið. Ég held að við séum þannig í sveit sett núna með okkar fé, okkar þjóðarsauð, að við þurfum ekki að bera neinn kinnroða af því að ganga til samninga án þess að fórna sjálfstæði okkar eða gangast í frekari skuldbindingar svona í stóra samhenginu. Ein hugmynd, sem ég ætla að fá að bera undir hæstv. ráðherra, gæti verið sú að við gengjum hreinlega til samstarfs við okkar gömlu þjóð, okkar gömlu herraþjóð sem býr við dönsku krónuna, evruviðmiðaða, og værum þar með þennan stöðugleika. Því að við þekkjum öll Íslandsálagið, við þekkjum 450 punkta álagið sem millibankasamningur kveður á um, bara í síðustu viku, 4,5% til að endurfjármagna Íslandsbanka eða Landsbanka, hvað sem það væri. Við skulum horfast í augu við að þetta kostar okkur ofboðslegar upphæðir á hverju ári að vera með smæstu mynt í heimi og við þurfum bara að vera djörf, stíga skref fram á við.