153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem upp til að vekja athygli á framlagi forstjóra Orkuveitunnar, Bjarna Bjarnasonar, til umræðunnar um orkuskiptin í fjölmiðlum. Í grein sem ber yfirskriftina „Að virkja sig frá loftslagsvánni“ skrifar forstjóri Orkuveitunnar, með leyfi forseta:

„Samkvæmt gildandi lögum og reglugerðum er ógerlegt að tryggja að nýtt rafmagn rati í orkuskiptin. Engu að síður er unnendum náttúru Íslands nánast stillt upp við vegg; annaðhvort virkjum við þessi reiðinnar býsn af rafmagni eða aukum á loftslagsvána. Það er ekki gott.“

Þetta er kjarni málsins, hæstv. forseti. Allt tal um að hægt sé að rigga upp 16 TWst í orkuöflun, sem að sögn er nauðsynlegt vegna orkuskiptanna, er eins og hver önnur fásinna. Það þarf nefnilega að gera margt annað en að virkja vatnsföll, jarðvarma og vind til að draga hratt og örugglega úr losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi.

Af þessu tilefni langar mig að minna á þingsályktunartillögu frá þingflokki Samfylkingarinnar sem ég mælti fyrir í upphafi þessa þings. Þar leggjum við m.a. til að gerðar verði nauðsynlegar breytingar á lögum og reglugerðum svo hægt sé að beina orkuöflun til orkuskiptanna. En einnig er lagt til að stjórnvöld skilgreini svokallaða alþjónustu með fullnægjandi hætti í raforkulögum til að tryggja raforkuöryggi heimilanna í landinu, sem er ekki síður mikilvægt. Þetta hefur ekki verið gert og enn er beðið frumvarpa frá hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Ég spyr því, hæstv. forseti: Er til of mikils mælst að stjórnvöld byrji á réttum enda; móti lagaumgjörð, forgangsröðun og leikreglur orkuskiptanna áður en virkjanakúrekunum er gefinn laus taumurinn?