153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við stöndum hér frammi fyrir ærnu verkefni: Að vinna gegn verðbólgu, byggja upp styrk ríkissjóðs og auðvitað styðja við heimilin í landinu. Efnahagurinn hefur styrkst skref fyrir skref en við þurfum að halda áfram á sömu braut. Við þurfum að ganga á undan með góðu fordæmi og sýna aðhald í útgjöldum og stuðla þannig að stöðugleika og sjálfbærni. Meginmarkmið er auðvitað að stöðva hækkun skuldahlutfalla.

Í dag er á dagskrá hér í þinginu umræða um frumvarp sem ég flyt í hópi góðra Sjálfstæðismanna um breytingu á lögum um starfsemi stjórnmálasamtaka. Málið er vissulega prinsippmál fyrir mér, m.a. af því að það er mikilvægt útgjaldamál enda snýr það að framlögum ríkisins til stjórnmálaflokka sem hafa margfaldast á undanförnum árum. Mig langar því til að nota tækifærið hér í dag til að hvetja þingmenn til að taka þátt í þessari umræðu sem verður vonandi í dag, ef ekki í dag þá vonandi bráðlega.

Ég heyri að fleiri hv. þingmenn hafa vakið máls á útþenslu báknsins og þeir láta sig vonandi ekki vanta í umræðuna. Ég vildi gjarnan hvetja þá sem hafa reynslu af stjórnmálum, þá sem hafa samanburðinn, til að velta fyrir sér hvort ríkisvæðing stjórnmálaflokkanna hafi verið til bóta fyrir stjórnmálastarf í landinu. Það væri a.m.k. gott að fá gagnlegar ábendingar og athugasemdir við málið. Það er auðvitað mikilvægur liður í starfi okkar hér.