153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

Fangelsismál.

[14:27]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Þegar rætt er um þennan málaflokk er nauðsynlegt að hafa í huga að fangelsi landsins eru endastöð. Það endar enginn óvart og allt í einu í fangelsi. Ákall fangavarða og fanga um úrbætur í fjársveltum fangelsum, til að tryggja öryggi allra þar inni, hefur verið hátt og snjallt. Það hefur ómað um samfélagið árum saman þannig að allir hafa heyrt nema helst þeir sem stýra fjármununum og fara með vald til að forgangsraða þeim. Það er nefnilega svo að löng leið fanga í fangelsi er ekki bara afbrotasaga og erfitt lífshlaup heldur þrautaganga í gegnum fjársvelta löggæslu, ákæruvald og dómstóla. Það er kjarni málsins.

Áralöng sveltistefna fjölmargra dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins í þessum grundvallarþáttum samfélagsins er kostnaðarsöm og birtist okkur allt of oft í brotum á grundvallarmannréttindum fólks eins og hér hefur verið rakið. Það er því verulega ámælisvert að stjórnvöld, og sér í lagi hæstv. dómsmálaráðherra, reyni að slá sig til riddara nú með því að bæta fjármagni inn í fjársvelt kerfin sem sérstakt viðbragð við þungri og áralangri gagnrýni. Bóndi sem vanrækir skepnurnar sínar árum saman á ekki að fá klapp á bakið fyrir það eitt að ákveða skyndilega og aðþrengdur að gefa þeim fóðurbæti.

Svo er það vandséð og eiginlega algjör firra að orð hæstv. dómsmálaráðherra um að efna til stríðs gegn skipulagðri glæpastarfsemi séu sérstaklega hjálpleg, hvort sem litið er til löggæslunnar eða fangelsismála. Hvort er líklegra að skipulagðir glæpahópar bregðist við stríðsyfirlýsingu hæstv. ráðherra með því að veifa hvítu flaggi eða með því að vígbúast og vopnavæðast frekar? Þessi spurning svarar sér auðvitað sjálf og svarið er áhyggjuefni fyrir lögreglu landsins og öryggi hennar. Og hvernig eiga fangelsi landsins að taka við fórnarlömbum þessa stríðs dómsmálaráðherra, jafn löskuð og þau eru eftir samfellda niðurskurðarkröfu frá hruni?

Tilviljunarkennt viðbragð í formi aukinna fjármuna í miðri fjárlagaumræðu kemur ekki í stað skilvirkrar og vandaðrar stefnumótunar (Forseti hringir.) þar sem litið er til forvarna, betrunar og endurhæfingar. Innihaldslausar stríðsyfirlýsingar gera það heldur ekki. Slíkir frasar kunna að hljóma vel en án raunverulegra (Forseti hringir.) og raunhæfra aðgerða ala frasarnir bara á ótta og óttinn gagnast glæpamönnum betur en lögreglu og löghlýðnum borgurum þessa lands.