153. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[22:06]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Hér erum við að greiða atkvæði um 150 millj. kr. til hjálparsamtaka sem eru að gefa fátæku fólki mat núna fyrir jólin. 150 millj. kr. Það er athyglinnar virði að sjá hvernig raunverulega er litið á þá sem við erum búin að hneppa í slíka og þvílíka fátæktargildru að þurfa að standa í löngum röðum fyrir framan hjálparstofnanir til að betla mat. Staðan er orðin það slæm akkúrat núna að það er farið að slengja í lás áður en hægt er að gefa öllum að borða. Þannig að, virðulegi forseti, með tilliti til þess hvernig hægt er að ausa peningum í milljarðatugavís á báða bóga þá eru þetta baunir sem ég er að biðja um hér til að reyna að hjálpa því fólki sem á bágast í samfélaginu.