153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

undanþágur frá samkeppnislögum í landbúnaði.

[15:25]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefnir sérstaklega undanþágu mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum. Hér er verið að ræða ákvæði sem gengur í raun skemur en það ákvæði. Þær greinar samkeppnislaga sem ákvæðið nær yfir eru tilgreindar en að öðru leyti gilda samkeppnislög. Því er tilgreint að þetta taki til flutnings sláturgripa, slátrunar, birgðahalds og frumvinnslu auk skyldra verkefna og skilyrðin sem afurðastöðvarnar þurfa að undirgangast eru jafnframt talin upp í ákvæðinu. Því held ég að mjög mikilvægt sé að nýta samráðsferlið sem er hugsað til að draga þessi sjónarmið fram. Þetta skiptir mjög miklu máli fyrir stöðu landbúnaðarins, sóknarfæri hans og þau sjónarmið sem hv. þingmaður nefnir hér og vegast á að hluta; snúast annars vegar um frumframleiðsluna og hins vegar um sjónarmið neytenda. Ég held að markmiðið eigi að vera að þessi sjónarmið geti farið saman.