153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

staða Sjúkratrygginga Íslands.

[15:26]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Um mitt síðasta ár var sýndur þáttur Kveiks um stöðu heilbrigðiskerfisins og Sjúkratrygginga þar sem m.a. kom fram að 52 ára sjálfstætt starfandi svæfingarlæknir var á toppi listi yfir þá lækna sem Sjúkratryggingar Íslands greiða mest fyrir hvern vinnudag. Sá læknir fékk að meðaltali greiddar 703.938 kr. á dag. Einnig kom fram í umræðunni þá að Sjúkratryggingar hefðu ekki hugmynd um kostnaðarmat á þeim verkefnum sem stofnunin hafði samið um við viðsemjendur sína. Núna er komin fram uppsögn forstjóra Sjúkratrygginga Íslands og það segir m.a. í tilkynningu hennar, með leyfi forseta:

„Fjárlagafrumvarpið boðar óhjákvæmilega lækkun rekstrarkostnaðar með fækkun starfsmanna Sjúkratrygginga og stórskerðingu á þjónustu við landsmenn.“

Hún segir einnig:

„Rauði þráðurinn í þessum úttektum og skýrslum hefur því miður verið sá að stofnunin hafi ekki sinnt skyldum sínum með fullnægjandi hætti, m.a. vegna takmarkaðs rekstrarsvigrúms.“

Ég geri ráð fyrir því að þessi tilkynning sé að koma í kjölfarið á þeim breytingartillögum sem ríkisstjórnin hefur lagt fram vegna fjárlaga 2023 sem fela í sér 3 milljarða kr. hækkun, aðallega vegna lyfjakostnaðar að vísu, til að mæta umframútgjöldum hjá Sjúkratryggingum Íslands á árinu 2022 en hefur síðan áhrif á 2023. Ég geri ráð fyrir því að þessi uppsögn og þessi ummæli komi þrátt fyrir breytingartillögur ríkisstjórnarinnar. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra einmitt um það og einnig tillögu ráðherra fyrir fjármálaáætlun. Var staðan ekki augljós þegar lagt var upp með fjármálaáætlun í vor og af hverju erum við þá föst í þessari stöðu núna?