Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[22:05]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna á þessu frumvarpi. Ég held að hæstv. ráðherra og hv. þingmenn vilji að sjálfsögðu að sem flestir fatlaðir geti nýtt sér NPA-þjónustuna. Spurningin er bara hversu fljótt og hversu margir. Nú fórum við sem erum þingmenn í Suðvesturkjördæmi og hittum öll sveitarfélögin saman í kjördæmaviku. Undantekningarlaust töluðu öll sveitarfélögin um það hvað kostnaður við þessa samninga hefði verið miklu hærri heldur en þau gerðu ráð fyrir og að þetta væri að sliga þau fjárhagslega. Mig langaði þess vegna í fyrra andsvarinu að spyrja hæstv. ráðherra — það er gott að gott og blessað að hæstv. fjármálaráðherra sé að setja einhvern pening í þetta á þessu ári til að dekka 25% frá ríkinu, en mig langaði að skilja aðeins betur þetta með kostnaðinn sem fellur á sveitarfélögin. Er eitthvað verið að gera til þess að hjálpa þeim að standa undir þessum mun hærri kostnaði heldur en þau héldu að þau væru að fara út í þegar þau sömdu um þetta í upphafi? Er eitthvað verið að koma til móts við þau, t.d. með því að hækka útsvarið eða eitthvað slíkt? Ég náði einhvern veginn ekki að sjá það út úr þessu frumvarpi en kannski er það falið í einhverjum öðrum pappírum sem við erum að lesa þessa dagana.