Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[22:07]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Forveri minn í starfi, hæstv. þáverandi félags- og barnamálaráðherra, setti í gang vinnu í fyrra; starfshóp til að endurskoða lögin og reglugerðirnar sem eru byggðar á lögunum og fara í gegnum kostnaðinn og kostnaðarþróunina hjá sveitarfélögunum. Sá hópur skilaði af sér í maí á þessu ári og við settum strax í gang starfshóp á milli ríkis og sveitarfélaga og þar sem líka eru notendur innan borðs. Þeim hópi er ætlað að skila fyrstu tillögum sínum að því hvernig við nálgumst þessa kostnaðarskiptingu núna í desember þannig að við bíðum eftir því. Ríkisstjórnin ákvað hins vegar, í ljósi þess hversu mjög svo umfram áætlanir þessi kostnaður hefur farið á undanförnum árum, að taka strax ákvörðun um að leggja 5 milljarða kr. á næsta ári til sveitarfélaganna. Sú leið er farin með því að hækka útsvarið og lækka tekjuskattinn að öllum líkindum. Þar með er verið að mæta hið minnsta einhverjum hluta þess aukakostnaðar sem þarna hefur sannarlega átt sér stað. Það er náttúrlega viðurkenning ríkisins á því að um er að ræða einhvern aukakostnað sem ríkið ber réttilega ábyrgð á. En ég minni á að sveitarfélögin eiga að sjálfsögðu líka einhvern þátt í þessu og ákveðin álitaefni þarf að skoða betur, t.d. hvort sveitarfélögin séu í öllum tilvikum búin að uppfylla sína 15 klukkustunda skyldu samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, hvernig launahækkanir hafa verið og fleiri atriði sem huga þarf að í þessu samhengi.