Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

Störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Það er eitthvað undarlegt í gangi í umræðunni um Íslandsbankasölumálið. Í hvert sinn sem er spurt um hæfi ráðherra til að taka einhverjar ákvarðanir í því máli fara í gang alls konar útúrsnúningar. Fyrsti útúrsnúningurinn var frá ráðherra: Mátti pabbi ekki kaupa? spyr hann. En hver einn og einasti hérna inni veit að það væri hagsmunaárekstur ef ráðherra myndi selja pabba sínum ríkiseign, hvort sem hann mátti það eða ekki. Næsti útúrsnúningur var að ráðherra vissi ekkert að pabbi hans var að kaupa af honum hlut í Íslandsbanka, að það þýði á einhvern hátt að það sé enginn hagsmunaárekstur. Það er ýjað að því að ef hann vissi það ekki hafi það ekki getað haft áhrif. Vandamálið við þessa málsvörn er að við höfum ekki hugmynd um hvort ráðherra er að segja satt og hann getur ómögulega sannað að svo sé. Þannig virka hagsmunaárekstrar við fólk sem er nákomið okkur. Tækifærin til óformlegra samskipta eru svo óendanlega mörg að það er ekki hægt að koma í veg fyrir þau eða sýna fram á það með óvefengjanlegum hætti að þau hafi ekki átt sér stað. „Ég vissi það ekki“ eru ekki gjaldgeng rök í svona málum.

Svo eru fullyrðingar um að það hafi aldrei komið upp tilefni til að skoða hæfi, að hagsmunaárekstur væri ekki mögulegur af því að enginn athugaði það, svona „ef tré fellur í skógi og enginn er nálægt þá kemur ekkert hljóð“-rök. Ef þetta fær að standa mun ráðherra héðan í frá alltaf geta svarað bara: Ég vissi það ekki, og losnað við alla hagsmunaárekstra. Hann getur sleppt því að skoða hvort hann sé hæfur til þess að taka ákvörðun og þá bara losnar hann við hagsmunaárekstra: Mátti sonur minn ekki sækja um embættið? Æ, ég hélt bara að þetta væri alnafni hans. Ég skil að það sé erfitt fyrir stjórnarliða að viðurkenna vandann. Það er erfitt að viðurkenna mistök. En mér finnst hins vegar enn verra að gera mistökin verri með því að blekkja fólk. Og þar er ábyrgðin ekki bara ráðherra.