Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

Störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Það er svolítið erfitt að koma á eftir þessu. En nú í morgun kom í ljós að kærunefnd útlendingamála hafi úrskurðað að hópur brottsendra hælisleitenda hafi átt rétt á efnislegri meðferð. Það að þessi hópur fólks hafi átt rétt á efnislegri meðferð þýðir að þau hefðu bara átt góðan séns á því að fá hæli á Íslandi. Sum þeirra hafa nú þegar verið send með valdi til Grikklands þar sem sum eru heimilislaus og bjargarlaus og eiga afar lítinn möguleika á því að komast til Íslands, mæta í viðtal hjá Útlendingastofnun og fylgja endurupptökunni eftir. Hvers vegna? Jú, því það er algengt að fólk á flótta í leit að hæli sé vegabréfslaust og þurfi að reiða sig á að fá grísk ferðaskilríki og það mun taka afar langan tíma því að hælisleitendakerfið í Grikklandi er lamað af álagi. Nú gætum við skeggrætt aðstæður og smáatriði í þaula en mér finnst mestu máli skipta hve skýra stefnu stjórnvöld hafa markað sér í útlendingamálum, stjórnvöld leidd af forsætisráðherra sem básúnar stöðugt um mannréttindi og ber sér á brjóst fyrir að hafa gert mismunun ólöglega. Ríkisstjórnin, með Katrínu Jakobsdóttur við stjórnvölinn, vill frekar fljúga fólki úr landi í skjóli nætur með handafli. Isavia er látið beina ljósi að myndavélum fjölmiðla til að ekki sjáist til lögreglunnar fylgja hælisleitendum sem hún hefur í haldi inn í flugvél. Þetta er á þeirra ábyrgð. Það er á þeirra ábyrgð að þessu fólki hafi verið fleygt úr landi með ofbeldisfullum hætti. Það er á þeirra ábyrgð að þetta fólk er ófært um að leita réttar síns hér á landi vegna þess að það er heimilislaust og vegabréfslaust í Grikklandi einmitt núna.

Því spyr ég mig, forseti, spurningar sem ég hef spurt hæstv. forsætisráðherra að áður, sama forsætisráðherra og sagði árið 2017 að þetta gætu verið börnin okkar: Stendur VG á bak við útlendingastefnu Sjálfstæðisflokksins eða Vinstri grænna?