Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:09]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður talar hérna með þessa 2,7 milljarða sem fjárlaganefnd kemur með sem komu út af þó nokkrum fjárheimildabeiðnum sem bárust fjárlaganefnd. Við fengum ekki upplýsingar um hvaða fjárheimildabeiðnir komu til ráðuneyta, þetta voru bara fjárheimildabeiðnir sem voru sendar beint á fjárlaganefnd en það er ólíkt því hvernig þessu var hagað áður. Þá auglýsti Alþingi eða fjárlaganefnd eftir beiðnum og var með sérstakt form fyrir það þar sem fólk gat komið og sótt um fjárheimildir til Alþingis en núna er ekki sama aðgengi að því. Það vita það væntanlega ekki allir að þeir geta greinilega núna sótt um einhverjar milljónir hingað og þangað til hinna og þessara verkefna. Er það ekki dálítill aðstöðumunur ef upplýsingarnar eru svona mismunandi fyrir fólk og aðila? Sumir vita greinilega af einhverjum ástæðum að þeir geta sent til fjárlaganefndar og fengið 5 milljónir fyrir eitthvert verkefni einhvers staðar en aðrir hafa reynt að hafa samband við ráðuneyti, af því að það hefur þeim verið ráðlagt að gera; vinsamlegast beindu þessu til ráðuneytis. Og þeir gera það og fá ekkert.

Hv. þingmaður talar um innspýtinguna í heilbrigðiskerfið sem er eiginlega bara leiðrétting á vanmetnum málaflokkum. Það eru lyfin og ýmislegt svoleiðis sem er bara vanmat á stöðunni. Það er ekki hægt að tala um innspýtingu þegar er verið að koma með fjárheimildir sem rétt duga fyrir sömu þjónustu og er í boði á þessu ári. Mér finnst það ekki nægilega vel sundurliðað í rauninni hvað af þessu gæti verið flokkað sem einhver efling, þegar maður er að reyna að telja allt til. Það er bara: Nei, heyrðu, þetta er vegna vanmats eða umframkostnaðar hjá Sjúkratryggingum, vanmats á lyfjum, þetta er vegna betri vaktavinnutíma, þetta er vegna raunkostnaðar. (Forseti hringir.) Það er allt bara fyrirsjáanlegur kostnaður, sem er ekki efling á kerfinu heldur er einfaldlega verið að (Forseti hringir.) aðlaga stöðuna að fjölmennara samfélagi, fleiri ferðamönnum og öldrun þjóðar.