Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[01:46]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Klukkuna vantar korter í tvö um nótt. Við erum hér í 2. umr. um fjárlög, eina mikilvægustu löggjöfina sem samþykkt er á þessu þingi á hverju ári ef ekki þá mikilvægustu. Það er alþekkt og það er alvanalegt að umræða um fjárlög taki nokkra daga vegna þess að flestir þingmenn vilja taka til máls. Ræðutími er lengdur vegna þess að þetta er viðamikið mál sem tekur í raun á öllu sem snertir störf okkar hér, allt samfélagið er undir, allt sem við gerum. Það er bæði viðbúið og það er eðlilegt að þessi umræða taki tíma og það á að gefa henni þann tíma sem hún á skilið. Þessi umræða á virðingu skilið. Ég ætla bara að lýsa yfir undrun minni yfir því að það sé verið að halda okkur hér fram á nótt. Ég er ekki búin að halda mína fyrstu ræðu í þessu máli og hún verður löng og klukkan er margt. (Forseti hringir.) Ég vil aftur biðla til forseta um að sýna þessu máli þá virðingu að leyfa okkur að ræða það eins lengi (Forseti hringir.) og þörf krefur svo að allir geti fengið að taka til máls sem hafa áhuga á því í dagsbirtu.