Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:02]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sína. Hún talaði um það virðingarleysi sem heilbrigðisstarfsfólki landsins er sýnt með þessari viðvarandi sveltistefnu og það rifjaði upp fyrir mér tilvitnun í hjúkrunarfræðinginn Helgu Sif Friðjónsdóttur sem á Facebook-síðu sinni lýsti þá nýlegum baráttufundi hjúkrunarfræðinga, þetta var 2020, svo með leyfi forseta:

„Þeir hjúkrunarfræðingar sem tóku til máls lýstu upplifun sinni af virðingarleysi, skömm, smánun, þöggun og því að ekki væri hlustað á þá. Þeir lýstu skilningsleysi annarra á því hvað hjúkrunarfræðingar gera í raun í vinnunni og að einhverju leyti uppgjöf tengt þessari löngu baráttu.“

Þetta var árið 2020 og ekki hefur ástandið skánað og við höfum séð hvernig mjög reyndir hjúkrunarfræðingar, t.d. á bráðamóttöku, hafa verið að segja upp störfum í hrönnum vegna þess að þeir sjá að ekki stendur til að gera neitt til að laga ástandið. Það er að því er virðist algjört sinnuleysi gagnvart neyðarópum heilbrigðisstarfsfólks. Þannig að auðvitað hlýt ég að taka undir með hv. þingmanni að það er fullreynt með þessa ríkisstjórn og fullreynt alveg sér í lagi með þennan fjármálaráðherra sem við erum með. En spurning mín til hv. þingmanns er kannski: Hvernig getum við ætlast til þess að heilbrigðisstarfsfólk haldi þessu kerfi áfram gangandi þegar þau virðast ekki einu sinni virt viðlits af stjórnvöldum?