153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:36]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvarið. Já, á mjög góðan máta sögðum við við frændur okkar í austri að þau væru velkomin hingað til að losna úr því ástandi sem er þar. Bara það litla sem ég hef fengið að umgangast Úkraínubúa sem hingað hafa komið — þau hafa öll verið þakklát fyrir þann stuðning sem við Íslendingar, ekki bara ríkið heldur líka einstaklingar og fyrirtæki, höfum sýnt.

Hv. þingmaður spurði hvort þetta hefði komið niður á öðrum. Já, því miður, og við sjáum bara í fjáraukalögum þessa árs að það er verið að taka tæpan milljarð úr þróunaraðstoð og meira að segja stendur í fjáraukalögunum að verið sé að taka pening sem bitnar á annarri mannúðaraðstoð sem er mjög brýn annars staðar í heiminum. Þetta er þvert á það sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra lýsti yfir í haust þegar ég spurði ráðherra hvort ekki yrðu sérstaklega teknir peningar frá fyrir Úkraínu til að það kæmi ekki niður á öðrum. Við erum að sjá hungursneyð aukast, við erum að sjá fátækt aukast, við erum að sjá allt á niðurleið í þróunarlöndunum en á sama tíma erum við að skera niður.