153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:38]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni fyrir sína ræðu sem ég var mikið til alveg sammála. En í upphafi hennar minntist hann á 110%-leiðina sem farið var í eftir hrun og þar get ég ekki alveg setið þegjandi vegna þess að eins og allar aðgerðir sem farið var í eftir hrun og kallaðar voru aðgerðir fyrir heimilin var þetta alveg skelfileg aðgerð, alveg hræðileg. Maður sér það náttúrlega í hendi sér að það að setja verðtryggt lán í 110% yfir veðsetningu er bara ávísun á skelfingu og það voru mjög margir sem fóru mjög illa út úr þessu. Þar fyrir utan var þetta gert bara svona flatt á alla, alveg sama hvað þeir skulduðu mikið. Svo ég taki nú bara dæmi um sjálfa mig, við vorum með 55% lán á okkar húsi en við áttum samt að fara í 110% ef við hefðum þegið þessa aðstoð. Hvaða rugl er það? Ég get því ekki setið þegjandi yfir þessu og ég segi meira í næsta andsvari.