Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[11:44]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég get ekki annað en verið innilega sammála henni. Við hljótum líka að spyrja okkur: Af hverju er verið að reikna framfærsluviðmiðið án húsnæðisliðar? Við erum á Íslandi. Þá hugsa ég: Bíddu, ég er kannski að gefa þeim hugmynd, ég veit það ekki. En tökum sem dæmi konu sem hefur ekki lengur efni á að leigja, hún er með 240.000 kr. útborgaðar, og ákveður þá bara: Ja, ég fer bara í Laugardal í hjólhýsi og verð þar. En hugsið ykkur, kerfið sem við höfum byggt upp er svo ótrúlega óskammfeilið að vegna þess að hún er komin út úr húsnæði, sem sagt skráðu húsnæði, og fer í Laugardalinn þá taka þeir af henni húsnæðisuppbótina. Ef hún hefði flutt úr sínu húsnæði í jafn lítið húsnæði, sem er jafn stórt og hjólhýsið hennar, og það hefði verið skráð sem húsnæði þá hefði hún fengið húsnæðisuppbót. En af því að hún fer í eitthvað sem er ekki skráð sem húsnæði og er að reyna að bjarga sér þá þarf að refsa henni. Ég hugsa með mér og spyr hv. þingmann hvort hún sé ekki sammála mér um að það sé kominn tími til að við — sko, ég held að upphaflega hafi almannatryggingakerfið verið hugsað sem gott kerfi til að hjálpa fólki. En það er orðið andstæðan í dag, það er orðið refsikerfi. Það er einhvern veginn innbyggt í kerfið að ef fólk ætlar að reyna að bjarga sér þá eigi að refsa því. Sjálfsbjargarviðleitnin er yfirleitt lamin niður með öllum þessum skerðingum. Ég spyr mig hvort hv. þingmaður sjái nokkuð á næstunni að þessi ríkisstjórn eða einhver önnur ríkisstjórn taki sig virkilega til og reikni þetta bara allt saman rétt út og komi þessum hlutum í lag. Fyrst þeir eru ekki búnir að þessu núna, er þá nokkur von til þess að þessi ríkisstjórn fari í þetta, reikni þetta út og klári þetta bara?