Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[21:31]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni fyrir fróðlega ræðu. Það var mjög áhugavert sem hann sagði varðandi 7. gr. frumvarpsins, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ársreikningum og samstæðureikningum skal skilað rafrænt til ársreikningaskrár í samræmi við reglur sem ársreikningaskrá setur.“

Hann fór aðeins ofan í þetta mál og mátti skilja að stjórnvöld og við sem samfélag værum ekki að nýta okkur þessi rafrænu skil með nægilegum hætti. Í athugasemdum við 7. gr. segir, með leyfi forseta:

„Í ákvæðinu er eins og fyrr segir lagt til að ársreikningum verði skilað rafrænt, þá annaðhvort á pdf-formi eða þegar um örfélög er að ræða einfaldari útgáfu af ársreikningi sem byggist á skattframtali félagsins. Hér er um að ræða skil á rekstraryfirliti og efnahagsyfirliti byggð á skattframtali félagsins í gegnum vef Skattsins með „hnappnum“.“

Ég átti í svolitlum erfiðleikum með að skilja þessa setningu, annaðhvort á pdf-formi eða að skila með hnappnum, þarna er verið að tala um form. Það er talað um það á undan að þetta kalli á nokkra vinnu hjá starfsmönnum embættis ríkisskattstjóra varðandi viðtöku reikninganna í pappírsformi, að það þurfi að skanna þá inn og svoleiðis. Ég get ekki séð að þetta sé eingöngu til hagræðisauka að skila rafrænt, en það er ekkert verið að tala um þessa úrvinnslu sem er möguleg í rafrænu formi ef þetta er á réttu formi. Pdf-formið er mjög merkilegt form, en það er hins vegar algerlega lokað. Það er ekki hægt að lesa út úr því rafrænt hvað stendur þar. Ef þetta væru skil á opnu formi, stöðluðu opnu formi, þá væri hægt að lesa úr því óendanlega mikið af tölum. Mér finnst það mikill ljóður á frumvarpinu að ekki skuli vera gerð krafa um að þetta sé á formi sem gerir mögulegt fyrir (Forseti hringir.) yfirvöld að lesa úr því. Það væri gaman að heyra álit hv. þingmanns á þessu.