Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

Störf þingsins.

[14:33]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Senn jólin og alltaf jafn kær, segir í textanum góða — alltaf jafn kær fyrir suma en því miður ekki alla. Ég býst við því að við hér, hv. þingmenn og ráðherrar, getum öll hlakkað til að skreyta jólaborðið kræsingum og hlaðið pökkum undir jólatréð þegar við tökum á móti ástvinum og umvefjum þau í anda jólanna, hátíð ljóss og friðar þar sem fjölskyldan kemur saman. Það er því sárara en tárum taki að þurfa sífellt að standa hér og benda á það augljósa sem þingheimur, stór hluti, virðist snúa blinda auganu að og þykist ekki sjá nokkurn skapaðan hlut. Fram undan er fimbulkuldi. Það er hátt í 400 einstaklingar, flest allt ungir karlmenn, sem eiga hvergi höfði sínu að halla í Reykjavík. Það er hópur fólks sem hefur kosið þá búsetu að búa í hjólhýsum, búa í fellihýsum og búa niðri í Laugardal án þess einu sinni að hafa örugga búsetu þar, án þess einu sinni að geta skráð lögheimili sitt þar, sem verður þess valdandi að þau fái ekki heimilisuppbót þrátt fyrir að tilheyra fátækasta hópi samfélagsins. Í raun og veru þegar maður á að vera hlaðinn tilhlökkun og bjartsýni og brosi og glaður yfir því að vera hér á aðventunni að vinna af hug og hjarta fyrir fólkið sitt þá er ég döpur, herra forseti. Ég er virkilega döpur að finna það ítrekað hér á hinu háa Alþingi hvað viljinn er lítill sem enginn til að taka utan um okkar minnstu bræður og systur.