Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

Störf þingsins.

[14:46]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Herra forseti. Þann 29. september síðastliðinn hafði ég forgöngu um það á vettvangi efnahags- og viðskiptanefndar að fjármálaráðuneytinu var falið að reikna út kostnaðinn af hækkun eignarskerðingarmarka í vaxtabótakerfinu um 50% og greina hver áhrifin yrðu hjá mismunandi tekjuhópum. Fjármálaráðuneytið réðst í þessa vinnu og niðurstaðan er sú að aðgerðin kostar 600 milljónir, rennur helst til fjórðu, fimmtu og sjöttu tekjutíunda og áhrifin verða mest hjá einhleypu fólki og einstæðum foreldrum sem hafa lágan tekjustofn. Við í Samfylkingunni höfum beitt okkur mjög fast fyrir þessari hækkun til að styðja við heimilin sem bera hitann og þungann af hækkandi vöxtum og það er fagnaðarefni að nú hafi loksins ríkisstjórnin fallist á að hrinda þessari tillögu í framkvæmd með nákvæmlega sömu útfærslu og ég lagði til og við í Samfylkingunni gerðum í kjarapakkanum sem við kynntum í síðustu viku. Þetta eru góðu fréttirnar hér í dag.

Hvað varðar hækkun húsnæðisbóta þá er mjög brýnt að tryggja að sú hækkun sem þar á að ráðast í muni raunverulega skila sér til leigjenda en ekki í rauninni til okurfélaganna á leigumarkaði með óbeinum hætti. Það gerum við best með því að setja bremsu á hækkun leiguverðs með lagasetningu eins og Skotar og Danir hafa gert.

Loks eru það barnabæturnar. Nú er komið í ljós, virðulegi forseti, og þetta er eitthvað sem ég hefði eiginlega ekki trúað, þetta er eitthvað sem við hrósuðum ríkisstjórninni fyrir í gær en nú er komið í ljós að hæstv. forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, var að villa um fyrir Alþingi hér í þessum ræðustól í gær þegar hún fjallaði um umfang þeirra auknu fjárheimild til barnabóta sem ríkisstjórnin leggur til og bar saman við tillögur stjórnarandstöðunnar. Í gær áttu barnabætur að hækka um 5 milljarða en nú liggja breytingartillögur ríkisstjórnarinnar fyrir. Þar er gert ráð fyrir að barnabætur hækki aðeins um 600 milljónir á gildistíma kjarasamningsins nýja og að þær hækki um rúmlega 2 milljarða, (Forseti hringir.) verði 2 milljörðum hærri árið 2024 en þær eru í dag og þær áttu að vera áfram samkvæmt fjárlögum og fjármálaáætlun. Þetta er ótrúlega óheiðarlegt, virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Ég er bara hálf miður mín yfir því að hvers konar stjórnmálamanni hæstv. forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir er orðin, að óheiðarleikinn sé svona, (Forseti hringir.) að svona sé gengið fram gagnvart þjóðþinginu í landinu. Ég fordæmi það.