Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[15:39]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Lenyu Rún Taha Karim fyrir hennar andsvar og ég verð að segja jú, þetta kerfi er svolítið skrýtið vegna þess að það virðist taka oft langan tíma að laga það þó að bent sé á galla í kerfinu. Við vitum með t.d. búsetuskerðingarnar, þegar umboðsmaður benti á þetta á sínum tíma, að þá var farið að skoða þetta kerfi sem varðar t.d. öryrkja og þá sem lentu í þessu búseturugli, eins og maður verður bara að kalla þetta af því að þetta var ólöglegt, það var farið 12 eða 13 ár aftur í tímann, og þá bregst auðvitað kerfið við í vörn. Ef þú brýtur lög, sérstaklega ríkið, ríkisstjórnin er að brjóta lög og viðurkennir það, við brutum lög, þá hefði maður haldið að það hefði bara allt farið á annan endann, nú bara leiðréttum við þetta einn, tveir, þrír og borgum þetta til baka, eins og sjálfsagður hlutur er þegar þú gerir eitthvað af þér. En þá finna þeir fyrningarreglur sem menn þurfa ekkert að fara eftir en ætla sér að fara eftir og borga bara fjögur ár aftur í tímann. Við erum að tala um verst stadda fólkið sem var búið að lifa — ég veit um einstakling sem var að reyna að lifa á 70.000–80.000 kr. á mánuði og þurfti að fara í félagsþjónustukerfið. Þetta fólk, má eiginlega segja, var fjárhagslega háð öðrum einstaklingi. Það fær jú leiðréttingu fjögur ár aftur í tímann en átti að fá þetta að fullu leiðrétt. En kerfið finnur alltaf leið, þó að fólk eigi rétt á þessu, til að klekkja á því. Það er eins og kerfið hugsi alltaf: Hvernig getum við klekkt á einstaklingunum? en ekki hvernig það geti hjálpað þeim.