Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

Störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég hef verið spurð að því margoft frá því að ég fékk þetta tækifæri nýlega, að vera alþingismaður þjóðarinnar, hvað hafi komið mér mest á óvart við nýja starfið, bæði í viðtölum en ekki síst af menntaskóla- og háskólanemum sem ég hitti gjarnan. Ég hef sagt þeim hreinskilnislega hvað þetta er að mörgu leyti góður vinnustaðar, hvað samvinnan getur verið góð þvert á flokka og ég hafi eignast góða vini og kollega í öðrum flokkum. Það er oft gagnlegt að eiga samskipti við og takast málefnalega á við kollega sína hér sem hafa fjölbreytta sýn og koma víða að með alls konar bakgrunn. Það er ánægjulegt að vinna með öllu þessu fólki sem brennur fyrir því að bæta samfélagið okkar þótt einhverjir leggi auðvitað til kolrangar leiðir til þess. Það eru meiri líkur en minni til þess að við stoppum hér ekki allt of lengi, að við verjum ekki allri starfsævinni hér. Við ættum líka að hafa það í huga þegar við eigum hér umræður að koma vel fram hvert við annað, bæði í ræðu og í riti. Í litlu samfélagi eins og okkar vitum við aldrei á hvaða dyr við þurfum að banka síðar meir, með hverjum við gætum þurft að vera í fjölskylduboðum. Ég er örugglega undir áhrifum af fallegum söng sem barst hér úr ræðustóli í gær, við skulum ekki útiloka það. En við erum alveg svakalega heppin að fá að vera hérna og við ættum að nýta tímann vel og standa undir traustinu sem okkur er sýnt. Þessi áminning er ekki síður til mín heldur en til ykkar.