Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

landamæri.

212. mál
[15:37]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti minni hluta um frumvarp til laga um landamæri. Við 2. umr. um frumvarpið, 23. nóvember sl., kallaði sú er hér stendur eftir því að málinu yrði aftur vísað til nefndarinnar. Þegar málið var tekið fyrir í nefndinni að nýju óskaði ég eftir minnisblaði frá dómsmálaráðuneytinu með nánari útlistun á því hvaða ákvæði íslenska ríkinu er skylt að taka upp vegna Schengen-samstarfsins og hver ekki, þar sem þetta er ekki ljóst af greinargerð með frumvarpinu og engin skýr svör fengust við þessum spurningum við meðferð málsins í nefndinni. Hins vegar óskaði ég eftir rökstuddu mati á áhrifum innleiðingar þessara reglna með tilliti til stöðu fólks á flótta og möguleika þeirra til að leita verndar hér á landi. Í svörum ráðuneytisins og nefndaráliti meiri hlutans í þessu máli segir í rauninni ekki annað en að nei, þetta hafi ekki áhrif á möguleika fólks til að leita hér verndar, en það er ekki rökstutt með neinum hætti. Málið var til umfjöllunar í nefndinni þann 29. nóvember. Ekki var fallist á beiðni mína og málið afgreitt úr nefnd án þess að þessi atriði væru könnuð. Greiddi ég atkvæði gegn því að málið yrði afgreitt úr nefnd. 1. minni hluti, sú er hér stendur, leggst gegn samþykkt málsins að svo stöddu og leggur til að því verði vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari vinnslu svo unnt verði að leggja raunverulegt mat á framangreinda þætti.