Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[15:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2023 og breytingartillögu. Meðal breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu er 7,7% hækkun krónutöluskatta og gjaldskráa í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarps, þ.e. hækkun á kolefnisgjaldi, olíugjaldi, almennu og sérstöku kílómetragjaldi, almennu og sérstöku bensíngjaldi, bifreiðagjaldi og gjaldi af áfengi og tóbaki. Sama gildir um gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra, sérstakt gjald til Ríkisútvarpsins og gjöld sem kveðið er á um í lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991. Að auki er lagt til í frumvarpinu að dregið verði úr afslætti áfengis- og tóbaksgjalds sem lagt er á í tollfrjálsum verslunum, breytingar á álagningu vörugjalda, þ.e. að sérstakt 5% lágmarksvörugjald skuli lagt á allar nýjar fólksbifreiðar sem knúnar eru vetni eða rafhreyfli að öllu leyti. Breyting á úrvinnslugjaldi vegna gler- og málmumbúða, viðarumbúða, pappa- og pappírsumbúða, plastumbúða, heyrúlluplasts og fleira. Um aðrar breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu og ekki er sérstaklega fjallað um í nefndaráliti vísast til greinargerðar með frumvarpinu.

Nefndin fjallaði ítarlega um málið og fékk til sín fulltrúa ráðuneyta, hagsmunaaðila og aðra sérfræðinga. Um málið bárust 37 umsagnir og önnur erindi, þar á meðal minnisblöð fjármála- og efnahagsráðuneytisins þar sem fram kom afstaða þess til efnisatriða umsagna. Meðal þeirra breytinga sem meiri hlutinn leggur til er 7,7% hækkun sóknargjalda, framleiðendaábyrgð á tilteknar plastvörur í samræmi við lög um úrvinnslugjald, niðurfelling fyrirhugaðrar hækkunar á gjaldi vegna fiskeldis í sjó, hækkun á skilagjaldi einnota umbúða fyrir drykkjarvörur og niðurfelling tolla á acai-berjagrunni.

Í a-lið 18. gr. frumvarpsins er lagt til að gildistími 14. töluliðs ákvæðis til bráðabirgða í lögum um almannatryggingar verði framlengdur. Í ákvæðinu er kveðið á um frítekjumark vegna atvinnutekna örorkulífeyrisþega. Sú framlenging var einnig lögð til í frumvarpi félags- og vinnumarkaðsráðherra um breytingu á lögum um almannatryggingar, frítekjumark og skerðingarhlutfall í máli 534. Svo að samhljóða breyting verði ekki gerð tvívegis á ákvæðinu er lagt til að a-liður 18. gr. falli brott. Líkt og áður greinir leggur meiri hlutinn til 7,7% hækkun sóknargjalda.

Í frumvarpinu var lagt til að sóknargjöld lækki úr 1.107 kr. á mánuði í eitt 1.055 kr. Meiri hlutinn leggur til að föst krónutala sóknargjalda á árinu 2023 verði 1.192 kr. á mánuði í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins. Á það er bent að það hafi ekki verið ætlun meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar á árinu 2020 og 2021 að þær hækkanir sem þá voru lagðar til yrðu tímabundnar líkt og fram kemur í greinargerð. Um innheimtu og skil sóknargjalda er mælt fyrir um í lögum um sóknargjöld og fleira nr. 91/1987. Ríkissjóður skal skv. 2. gr. laganna skila 15. hvers mánaðar af óskiptum tekjuskatti fjárhæð er rennur til þjóðkirkjusafnaða. Síðan eru ákvæði um fjárhæð sóknargjalds og árlega uppfærslu hennar. Þjóðkirkjan telur að lögin mæli fyrir um innheimtuþjónustu ríkisins fyrir þjóðkirkjuna og önnur skráð trú- og lífsskoðunarfélög en að ekki sé um að ræða einhliða ákvörðun í fjárlögum um árlega fjárhæð gjaldsins eins og framkvæmdin hefur verið síðastliðin 14 ár. Það segir sig sjálft að enginn rekstur getur þolað tekjufall á bilinu 40–50% árum saman án þess að það hafi alvarleg áhrif. Því til viðbótar hefur verðbólga undanfarna mánuði og miklar vaxtahækkanir gert stöðuna enn verri. Nú er svo komið að talið er að a.m.k. 30 söfnuðir séu nær ógjaldfærir sakir skertra sóknargjalda og mætti þá segja að þeir væru tæknilega gjaldþrota. Tilfinningin er sú að miklu fleiri söfnuðir séu í fjárhagsvanda en að einhverju leyti sé vandanum ýtt á undan með því að draga úr þjónustu og starfi og fresta viðhaldi fasteigna. Jöfnunarsjóður hefur í ákveðnum tilvikum haldið safnaðarstarfi á lífi með árlegum styrkjum en það er ekki hlutverk sjóðsins til lengri tíma.

Um áramótin taka gildi lög nr. 103 frá árinu 2021 sem kveða m.a. á um breytingu á lögum um úrvinnslugjald. Markmið laga um úrvinnslugjald, nr. 162 frá árinu 2002, er að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis með vörur og þjónustu til að stuðla að sjálfbærri auðlindanýtingu, draga úr myndun úrgangs og auka endurvinnslu hans. Jafnframt er markmið laganna að skapa hagræn skilyrði fyrir endurnotkun og endurvinnslu úrgangs og aðra endurnýtingu úrgangs með hliðsjón af umhverfislegum ávinningi.

Til að stuðla að endurvinnslu og endurnýtingu er úrvinnslugjald lagt á vörur sem falla undir lögin, hvort sem þær eru fluttar til landsins eða framleiddar hér á landi. Með gildistöku laganna verður kveðið á um að úrvinnslugjald skuli lagt á plastvörur, samanber viðauka XX við lögin. Meiri hlutinn leggur til breytingu þess efnis að nýjum viðauka XX verði bætt við lög um úrvinnslugjald þar sem kveðið verði á um úrvinnslugjald sem leggist á tilteknar plastvörur, m.a. tiltekin matarílát og umbúðir utan um matvæli, drykkjarílát, burðarpoka, blautþurrkur, blöðrur og tóbaksvörur með síum. Breytingartillagan er unnin í samráði við umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið að fengnum tillögum stjórnar úrvinnslusjóðs.

Í 56. gr. frumvarpsins er lögð til hækkun á fjárhæð gjalds vegna fiskeldis í sjó um 1,5 prósentustig vegna slátraðs lax þegar verð er 4,8 evrur á kílógramm eða hærra. Meiri hlutinn bendir á að mikil vinna stendur nú yfir við stefnumótun um fiskeldi en við framlagningu frumvarpsins var gert ráð fyrir því að sú vinna yrði lengra á veg komin. Gert er ráð fyrir því að í vor muni skýrsla Boston Consulting Group, um framtíðarmöguleika í lagareldi, og skýrsla Ríkisendurskoðunar, um framkvæmd lagasetningar og framkvæmd laga um fiskeldi, liggja fyrir. Með þeirri vinnu má gera ráð fyrir að gleggri mynd fáist af gjaldtöku hérlendis og í samanburðarlöndum sem getur skipt máli þegar réttlátt gjald fyrir afnot af sameiginlegri auðlind er ákvarðað. Þannig gefist einnig frekara ráðrúm til að ákvarða réttlátt gjald fyrir afnot af sameiginlegri auðlind.

Í frumvarpinu er ekki lögð til hækkun á skilagjaldi vegna einnota umbúða fyrir drykkjarvörur en gjaldið var síðast hækkað með lögum nr. 30 frá árinu 2021, um breytingu á lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, nr. 52/1989. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að ekki hafi þótt ástæða til að hækka skilagjaldið að teknu tilliti til verðlagsþróunar. Meiri hlutinn telur mikilvægt að viðhalda hvata neytenda til skila á einnota umbúðum fyrir drykkjarvörur og leggur til að gjaldið hækki úr 18 kr. á einingu í 20 kr. á einingu.

Að lokum leggur meiri hlutinn til breytingu á tollflokkun svokallaðs acai-berjagrunns. Nefndinni barst erindi frá Samtökum verslunar og þjónustu um íþyngjandi toll sem lagður hefur verið á acai-berjagrunn. Grundvallarinnihaldsefni acai-berja fellur utan vörusviðs tollasamninga Íslands og ESB og Íslands og Bretlands. Raunar gefa upplýsingar í rafrænni tollskrá Skattsins til kynna að grunnurinn falli utan vörusviðs allra fríverslunarsamninga nema samkomulags milli Færeyja og Íslands um tollfrelsi allra vara. Engin framleiðsla er hins vegar á acai-grunni og acai-ber vaxa ekki í Færeyjum. Í þessu ljósi ber acai-grunnurinn 30% verðtoll, auk 110 kr. kílóa magntolls við innflutning til Íslands. Tollurinn ræðst af því að varan er tollflokkuð í vörulið 2105 sem tekur til rjómaíss og annars íss til manneldis. Þar sem varan inniheldur minna en 3% mjólkurfitu en fellur utan skilgreiningar á skiptilið 2105.0020, sem tekur til ýmissa vegan-staðgönguvara, hefur hún samkvæmt úrskurði yfirskattanefndar verið felld undir undirflokk 2105 0099. Varan fellur, eins og áður sagði, utan gildissviðs helstu fríverslunarsamninga og ber því almennt 30% toll. Meiri hlutinn leggur því til breytingu á viðauka I við tollalög þannig að ís úr acai-berjum verði tollflokkaður með sama hætti og ís úr sojabaunum, hrísgrjónum, höfrum, hnetum og/eða möndlum eða minna en 3% af mjólkurfitu miðað við þyngd. Að auki leggur meiri hlutinn til nokkrar breytingar sem eru tæknilegs eðlis og þarfnast ekki skýringar.

Að framansögðu virtu leggur meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem hér hefur verið gerð grein fyrir.

Undir álit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Ágúst Bjarni Garðarsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Orri Páll Jóhannsson og Berglind Ósk Guðmundsdóttir.