153. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2022.

leigubifreiðaakstur.

167. mál
[00:29]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvar. Þetta er góð spurning. Ég lærði það í lögfræði að í dómsal skuli alltaf spyrja spurninga sem maður veit svarið við. Ég veit ekki hvort ég valdi hv. þingmanni vonbrigðum með mínu svari hér, hvort hann viti það þegar. Ég skil ekki að íslenskir leigubílstjórar þurfi að fara á námskeið eða afla sér menntunar í því að aka yfir landamæri. Af hverju? Það er vegna þess að íslenskir leigubílstjórar geta ekki ekið yfir landamæri. Þeir þurfa að taka ferju, sigla nokkra daga til meginlands Evrópu, til Noregs, inn á EES-svæðið, út af EES-svæðinu, út úr Schengen meira að segja, þú siglir út fyrir Schengen. Meira að segja þegar þú flýgur þá flýgur þú út úr Schengen og aftur inn í Schengen. Þeir sigla yfir Atlantshafið út úr EES-svæðinu og aftur inn í EES-svæðið á bát. Ég veit ekki til þess að nokkur einasta leigubílaferð hafi verið farin með þeim hætti að einstaklingur hafi tekið leigubíl í Reykjavík, keyrt austur á Seyðisfjörð, tekið Norrænu með leigubílnum, verið þar nokkra daga og svo keyrt í land í Hirtshals í Danmörku. Fræðilega væri kannski möguleiki að hann væri þá að keyra yfir landamæri, jú, hann er þá kannski að keyra yfir landamæri í einni ferð. En ég get ekki séð að það sé nokkur þörf á því. Þessar reglur eiga við um meginland Evrópu, ekki eyju í Norður-Atlantshafi. Það er hægt að segja bara: Nei, heyrðu, íslenskir leigubílstjórar stunda ekki þennan akstur. Alveg eins og það eru ekki raforkuviðskipti yfir landamæri er ekki leigubílaakstur yfir landamæri á Íslandi. Það er mjög einfalt mál að gera það og sleppa þá þeirri kvöð sem felst í því að keyra yfir landamæri af því að íslenskir leigubílstjórar stunda það ekki. (Forseti hringir.) Væri það brot á EES-samningnum? Nei. (Forseti hringir.) Ef ég væri íslensk stjórnvöld myndi ég fara með þetta alla leið til dómstólsins af því að ef ESA færi að skipta sér af því þá væri það komið langt út fyrir verksvið sitt og í algjöran sparðatíning.