Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[13:49]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegur forseti. Þetta snýst um að rafræn áskrift að Lögbirtingablaðinu sé frí, sé gjaldfrjáls. Lögbirtingablaðið er ekki beint neinn skemmtilestur. Það eru ekki margir sem eru áskrifendur að því og lesa það í tómstundum sínum. Margir lögaðilar eru náttúrlega með það í áskrift en þegar einstaklingur lendir hugsanlega í þeirri stöðu að verið er að auglýsa hans mál og fjalla um þau á einhvern hátt í Lögbirtingablaðinu þá verður hann að hafa aðgang að þessum upplýsingum og vita alla vega um þær án þess að þurfa að kaupa sér einhverja áskrift. Þar að auki er þetta oft fólk sem er í fjárhagslegum erfiðleikum. Þannig að mér finnst þetta ekki vera eitthvað sem ætti að skipta ríkissjóð miklu máli. En það vekur mér furðu að þetta sé ekki bara samþykkt vegna þess að þetta er ekki beint blaðamennska. Þetta eru upplýsingar sem liggja fyrir, opinberar upplýsingar sem allir eiga í rauninni að hafa aðgang að.