Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:57]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristrún Frostadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að nýta tímann í þessari 3. umr. fjárlaga til að fara yfir nefndarálit 1. minni hluta fjárlaganefndar. Það er kannski óvenjulegt að maður sé að leggja það á sig að skrifa nefndarálit á þessu stigi málsins en staðreyndin er einfaldlega sú að fjárlögin hafi tekið það miklum breytingum, myndi ég vilja segja, ekki í meðferð þingsins heldur í meðförum hæstv. ríkisstjórnarinnar á þessum þremur, fjórum mánuðum síðan þetta kom fram. Við erum endalaust í minni hlutanum að elta nýjar tillögur og þess vegna erum við enn að skrifa nefndarálit. Það sem er náttúrlega áhugavert við þessa stöðu er að það eru enn að berast pólitískar tillögur frá hæstv. ríkisstjórn. Venjulega er 3. umr. frekar tæknilegs eðlis. Það er verið að leiðrétta vankanta í lokin en þetta er auðvitað afleiðing af því að fjárlagafrumvarpið var lagt algjörlega óklárað hérna inn í þingið í haust þrátt fyrir að endanlegar áherslur ríkisstjórnarinnar eigi að birtast í frumvarpinu strax við framlagningu þess. Við höfum í hv. fjárlaganefnd þurft að funda reglulega um breytingartillögur um frumvarpið, fyrst og fremst vegna þessara tillagna hæstv. ríkisstjórnar, ekki vegna tillagna þingsins og það liggur fyrir eftir vinnslu þessa frumvarps í nefndinni að ríkisstjórnarræðið er orðið algjört. Ég sagði fyrir skömmu síðan, í 2. umr. þessa frumvarps þar sem við vorum í atkvæðagreiðslu, að við höfum í þessu ferli fengið endanlega staðfestingu á því að hæstv. ríkisstjórn rekur í rauninni enga stefnu. Það virðist vera lítið að marka hvað stendur í fjármálaáætlun að vori og fjárlögum að hausti. Hún er einfaldlega viðbragð við sjálfskipuðum vandamálum í velferðarkerfinu vegna þess að við höfum nánast séð samfelldan áratug af niðurskurði sem hefur því miður rúið samfélagslega mikilvæga innviði inn að skinni og skapað neyð núna rétt fyrir jól og áramót og gert það að verkum að það þarf að hlaupa til með stakar tillögur á síðustu stundu.

Nú er það svo að enn í 3. umr., virðulegi forseti, þarf hæstv. ríkisstjórn að liðka fyrir skammtímakjarasamningum með útspili. Ég vil vekja athygli á því að slíkt útspil væri alger óþarfi ef grunnkerfin okkar stæðu í grundvallaratriðum undir nafni. Slíkt útspil væri óþarfi ef hæstv. ríkisstjórn hefði staðið undir nauðsynlegri uppbyggingu óhagnaðardrifins húsnæðis og þar með skapað ákveðið akkeri á íbúðamarkaði sem héldi aftur af miklum hækkunum á leiguverði og héldi aftur af almennum íbúðaverðshækkunum. Þetta útspil væri óþarfi ef hér væri 20% íbúða á samfélagslegu formi líkt og víða á Norðurlöndunum en ekki 5% íbúðastofns sem gerir það að verkum að leigjendur lenda í verulegum vandræðum þessa dagana í mikilli dýrtíð. Þetta útspil ríkisstjórnarinnar væri óþarfi ef það hefði verið vilji hér í haust og fyrr til að setja á tímabundna leigubremsu til að koma í veg fyrir neyð á leigumarkaði á tímum mikilla verðhækkana, leigubremsu sem við í Samfylkingunni mæltum fyrir hér fyrr í vetur en sú tillaga var stöðvuð af stjórnarliðum í almennri umræðu. En núna koma forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar í ákveðnum flokkum og segist vilja slíka leigubremsu þrátt fyrir að hvergi megi sjá þingmál um slíkt af þeirra hendi. Slíkt útspil væri líka óþarfi, þetta aukaútspil núna í tengslum við kjarasamninga og við 3. umr., ef heilbrigðiskerfið hefði raunverulega verið eflt á undanförnum árum sem og geta Sjúkratrygginga Íslands til að hafa eftirlit með einkareknum aðilum í heilbrigðiskerfinu og standa í samningsgerð við þá. Þá þyrfti almenningur ekki að borga há komugjöld og gjöld fyrir sjálfsagðar aðgerðir úr eigin vasa. Að lokum væru löng nefndarálit og breytingartillögur í 3. umr. alger óþarfi ef hæstv. ríkisstjórnin hefði ekki mætt með fjárlagafrumvarp í haust sem varpaði allri ábyrgð á þenslunni á almenning í landinu með flötum krónutöluhækkunum sem leggjast hlutfallslega þyngst á lágtekjufólk heldur gripið til aðhaldsaðgerða með sköttum og gjöldum á greinar sem eru í rauninni að skila methagnaði.

Að því leytinu til má segja að þær aðgerðir sem voru boðaðar núna í tengslum við kjarasamninga og hafa enn og aftur áhrif á vinnslu fjárlagafrumvarpsins og fundi hv. fjárlaganefndar séu sjálfsagðar en þær eru við sjálfsköpuðum vanda sem hæstv. ríkisstjórnin mætir nú með inn í þessa 3. umr. Ég myndi þó segja að um algjör lágmarksviðbrögð væri að ræða.

Um helming þeirra aðgerða sem Samfylkingin kynnti í kjarapakka sínum í tengslum við 2. umræðu um frumvarpið hefur ríkisstjórnin gert að sínum, a.m.k. að nafninu til. Má þar nefna hækkun húsnæðisbóta og vaxtabóta. Það var nú bara fyrr í dag verið að samþykkja breytingartillögu Samfylkingar og fleiri flokka í minni hluta á eignaskerðingarmörkum vaxtabóta sem gerir það að verkum að fleiri geta notið góðs af þeim. Þetta eru mikilvægar breytingar. Hins vegar er það þannig að það þarf ekki að samþykkja nýja fjárheimild fyrir þessum aðgerðum þar sem 1,7 milljarðar kr. flytjast úr almennum varasjóði vegna þessa.

Ég má engu að síður til með að nefna það sem ég hef áður talað um í þessu samhengi, í ljósi þessa útspils í tengslum við kjarasamninga sem hefur áhrif á fjárlagafrumvarpið, að fram að þeim tíma höfðu húsnæðisbætur staðið óbreyttar í um fimm ár áður en fyrsta hækkunin kom núna til fyrr í ár. Á þessu fimm ára tímabili hefur leiguverð hækkað um hátt í 40%. Þannig að þessi fyrsta hækkun húsnæðisbóta á miðju ári sem nam 10% og þessi hækkun sem nú er lögð til í 3. umr. og er tæplega 14%, er auðvitað enn þá langt í frá til þess fallin að koma til móts við þessar miklu hækkanir. En þetta er vissulega skref í rétta átt. Aftur á móti hefur tillögum Samfylkingarinnar um leigubremsu, sem við nefndum fyrr í vetur og síðast í kjarapakkanum fyrir 2. umr. frumvarpsins, eins og ég nefndi áðan, verið hafnað í þinginu á þeim forsendum að það hafi ekki verið vilji til þess að koma til móts við þingmálið þó að það hafi verið rætt um það í fréttum að ákveðnir stjórnarliðar styðji slíka aðgerð.

Ég má til með að nefna að lokum í tengslum við húsnæðismálin og kjarapakkann sem ríkisstjórnin telur sig vera að koma með að hluta til inn í kjarasamningaviðræður, að það er auðvitað lykilatriði að það verði ráðist að rót vandans sem er á húsnæðismarkaði. Þetta er vandi sem hefur skapast og á rætur sínar að rekja m.a. frá þeirri tíð þegar verkamannabústaðakerfið var lagt niður um síðustu aldamót. Það hefur í rauninni ekki komið almennilegt kerfi síðan þá til að styðja við húsnæði á viðráðanlegu verði. Þess vegna er mjög alvarlegt mál að ríkisstjórnin, eins og ég talaði um við 2. umr. þessa frumvarps, hafi ekki staðið við vilyrði sín um að styrkja almenna íbúðakerfið með auknum fjárheimildum á næsta ári. Þessi saga, virðulegi forseti, er hins vegar ekkert sögð á þessum fjöldamörgum blaðamannafundum hæstv. ríkisstjórnar. Villt hefur verið um fyrir íslenskum almenningi, til að mynda í umfjöllun um húsnæðisuppbyggingu, nú allra síðast í byrjun þessarar viku í tengslum við barnabætur. Ég má til með að fara aðeins yfir stöðuna sem því tengist vegna þess að það er verið að fara mjög frjálslega með upplýsingar víða þessa dagana.

Ég hef til að mynda orðið fyrir verulegum vonbrigðum á undanförnum vikum og þá er ég ekki aðeins að tala um ákveðið verklag í tengslum við umfjöllun um fjárlagafrumvarpið í haust vegna þessara sífelldu breytingartillagna sem dynja á nefndinni frá hæstv. ríkisstjórn sem virðist ekki geta komið sér saman um tillögur í upphafi þingvetrar, heldur líka vegna málflutnings forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar á undanförnum dögum hvað varðar innihald þeirra kjaratillagna sem eru að birtast í þessum tillögum í 3. umr. frá meiri hlutanum.

Virðulegur forseti. Það er nefnilega þannig að það er eitt að stunda pólitík og vera ósammála um hugmyndafræði og áherslur en það er, að mínu viti, annað þegar það virðist vera að færast í aukana að reynt er að villa um fyrir almenningi með óskýrri framsetningu og bókhaldsbrellum. Fjárlagafrumvarpið er nógu erfitt yfirlestrar fyrir venjulegt fólk í landinu þótt ekki sé líka gripið til þess að færa fjárhæðir á milli og kalla það nýtt fjármagn milli ára. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að svona vinnubrögð ásamt öðru eru m.a. ástæða þess að traust á stjórnmálum mælist lágt. Fólk treystir því einfaldlega ekki að stjórnmálamenn segi hlutina eins og þeir eru. Við erum að sjá fjárframlög endurnýtt og blásin upp á blaðamannafundum, oft án samhengis.

Líkt og 1. minni hluti lýsti í nefndaráliti fyrir 2. umr. þá hefur þessi endalausi straumur breytingartillagna hæstv. ríkisstjórnar gert vinnu okkar í minni hlutanum mjög erfiða og í rauninni haldið aftur af aðhaldsgetu minni hlutans og utanaðkomandi aðila líka sem veita umsagnir um frumvarpið. Það er sífellt vitnað í fjárheimildir sem eru á leiðinni og ljóst að sumar hverjar bárust bara alls ekki. En það er oft lítill fréttaflutningur um þá niðurstöðu. Tökum til að byrja með aðeins fyrir átak í húsnæðisuppbyggingu. Það á mjög vel við að ræða þetta aftur í 3. umr. vegna þess að hæstv. innviðaráðherra talaði ítrekað um það í 2. umr. að það væri eitthvað meira að koma við 3. umr. Það kom vissulega inn í gegnum húsnæðisbætur en það var búið að gefa í skyn að það færi líka í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Þetta er vilyrði sem hann hafði gefið í upphafi fjárlaga og líka við vinnslu fjármálaáætlunar í vor. En það er alveg ljóst, núna þegar við stöndum á síðasta staðnum með þessi fjárlög, það eru ekki fleiri umræður, það er ekki hægt að koma með fleiri breytingartillögur á þessum tímapunkti, að viðbótarheimild fyrir húsnæðisuppbyggingu kom aldrei.

Rétt lýsing á stöðunni í húsnæðismálum hæstv. ríkisstjórnar er nefnilega þessi: Undanfarin ár hefur fjárheimild fyrir uppbyggingu óhagnaðardrifins húsnæðis í tengslum við stofnframlög til almenna íbúðakerfisins hljóðað upp á 3,7 milljarða kr. Á næsta ári verður fjárheimildin 1,7 milljarðar kr. Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar og það stefnir í að þetta verði samþykkt. Hún lækkar sem sagt um 2 milljarða á milli ára. Aftur á móti er að finna hjá ráðuneytinu 2 milljarða af ónýttri fjárheimild sem ekki var ráðstafað á yfirstandandi ári af því að það tókst ekki að byggja eins margar íbúðir og vonast var til og þessa 2 milljarða á að flytja núna á milli ára. Þetta kallar ríkisstjórnin ný framlög og stillir upp sem viðbótarfjárveitingu í fjölmiðlum. Upphæðin er auglýst sem átak í takt við það sem boðað var í vor og í haust og í viðtölum allt árið við hæstv. innviðaráðherra. Hvergi er minnst á þá staðreynd að ný fjárheimild lækkar í raun um 2 milljarða kr. Heildarfjármagn eftir millifærslu milli ára er vissulega 3,7 milljarðar en það jafngildir framlögum undanfarinna ára sem talin voru ófullnægjandi til að standa undir nauðsynlegri uppbyggingu. Hæstv. innviðaráðherra taldi fyrir nokkrum dögum að núna væri hægt að byggja upp 400 íbúðir vegna stofnframlaga ríkisstjórnarinnar á næsta ári og þess svigrúms sem verður til staðar. Höfum í huga, virðulegi forseti, að þetta er þriðjungur af þeim fjölda íbúða sem hæstv. innviðaráðherrann ræddi viðstöðulaust um allt árið á blaðamannafundum og í viðtölum og þetta eru færri íbúðir en hafa að meðaltali verið byggðar árlega hingað til og eru ekki taldar standa undir nægilegu framboði á markaðnum.

Spólum síðan fram til þessarar viku þar sem barnabótaútspil ríkisstjórnarinnar birtist. Að mínu mati er þetta útspil verra en húsnæðisútspilið hvað varðar villandi framsetningu. Hæstv. forsætisráðherra talaði í fjölmiðlum ítrekað um 5 milljarða kr. fjárveitingu til barnabótakerfisins sem voru kröfur af hálfu verkalýðshreyfingarinnar við gerð kjarasamninga og ráðherra vakti athygli m.a. á því í atkvæðagreiðslu við 2. umr. um þetta sama frumvarp að á leiðinni væru tillögur fyrir 3. umr. sem trompuðu tillögur minni hlutans.

Þess má geta að 1. minni hluti eða Samfylkingin lagði til breytingu um 3 milljarða kr. viðbót við barnabótakerfið núna um áramótin. Þessir 3 milljarðar væru um 22% aukning á milli ára. Til upplýsingar má þess geta að fjárheimild fyrir yfirstandandi ár sem stendur til að fullnýta að nær öllu leyti er 13,9 milljarðar og sú upphæð átti að vera óbreytt samkvæmt því fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár sem við höfum verið með til umræðu í allan vetur. 13,9 milljarðar hafa staðið í frumvarpsplagginu í allan vetur og í raun er þetta líka sú upphæð sem er skrifuð inn í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar og má sjá í spám fram í tímann til ársins 2025. Við í Samfylkingunni og þar með 1. minni hluti afturkölluðum hins vegar breytingartillögu okkar um hærri barnabætur á þeim forsendum að forsætisráðherra væri að tala fyrir 5 milljarða kr. heildarfjárveitingu til kerfisins yfir tveggja ára tímabil. Nú hefur komið í ljós eftir hraða yfirferð á endanlegum gögnum sem bárust hv. fjárlaganefnd, á þeim tíma sem leið frá blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar á mánudaginn, að breytingartillaga hæstv. ríkisstjórnar hljóðar ekkert upp á 5 milljarða kr. Hún hljóðar upp á 2 milljarða kr. á tveggja ára tímabili og þar af verður einungis 600 millj. kr. hækkun á næsta ári sem er árið sem kjarasamningarnir, sem þetta átti að styðja við, ná til.

Hæstv. ríkisstjórn og meiri hluti nefndarinnar bera fyrir sig að í óbreyttu kerfi hefðu einungis 10,9 milljarðar verið greiddir út í barnabætur árið 2024 og tillaga þeirra snúist um að á sama ári verði aftur á móti greiddir út 15,9 milljarðar kr. og megi því stilla því upp sem 5 milljörðum kr. í viðbót.

Ég vek athygli í þessu samhengi á töflu sem má finna í nefndaráliti 1. minni hluta þar sem er farið aðeins yfir tölurnar í þessu samhengi og hvað það þýðir ef ríkisstjórnin hefði aðeins verið að greiða 10,9 milljarða árið 2024. Það er kannski ekkert skrýtið að margir, a.m.k. í minni hlutanum, velti fyrir sér á hverju þessir blessuðu 10,9 milljarðar árið 2024 í óbreyttu kerfi byggjast. Það er ekki að finna í fjárheimild sem kemur fram í núgildandi fjármálaáætlun, heldur ekki í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2023 þar sem við sjáum spár fram í tímann. Í frumvarpinu fyrir næsta ár er gert ráð fyrir 13,9 milljörðum kr. og 2024 og 2025 í raun. Staðreyndin er sú, virðulegi forseti, að á bak við þessa 10,9 milljarða kr. sem ríkisstjórnin vitnar núna til sem grundvallarforsendu fyrir viðbót upp á 5 milljarða kr., eru forsendur þess að 4.600 fjölskyldur detti út úr barnabótakerfinu á árabilinu 2022–2024 vegna óhreyfða skerðingarmarka. . Þannig hefði ríkisstjórnin í óbreyttu kerfi sparað sér 3 milljarða kr. af þeirri fjárheimild sem gert var ráð fyrir að rynni til málaflokksins. Þeir 3 milljarðar eru taldir með í tillögum ríkisstjórnarinnar. Þessi stefna hennar, að áður hafi átt að skerða 4.600 fjölskyldur úr kerfinu fram til ársins 2024, stefna sem hún segist nú hafa horfið frá eftir þennan kjarapakka sem var verið að kynna, hefur hvergi komið fram; hvorki í fjármálaáætlun, fjárlögum né yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar hingað til. Ég hefði viljað fá að vita, m.a. frá meiri hlutanum hér í salnum, hvernig umsagnir frá m.a. verkalýðshreyfingunni og stéttarfélögunum hefðu litið út í haust ef það hefði staðið til að skerða fjölskyldur út úr kerfinu að öðru óbreyttu, ef fjárlagafrumvarpið hefði verið unnið þannig í haust að það sýndi þá grunnheimild sem greinilega stefndi í áður en þetta tilhlaup hæstv. ríkisstjórnar kom til. Þær umsagnir hefðu verið allt öðruvísi.

Ég hvet þá sem hér fylgjast með til að skoða þau gögn sem má finna í nefndaráliti 1. minni hluta, þar sem er vitnað í minnisblað fjármálaráðuneytisins. Þar kemur fram að þetta óbreytta barnabótakerfi — sem er einhver ný hugtakanotkun, sem ég hef ekki heyrt áður, vegna þess að undir venjulegum kringumstæðum hlýtur almenningur og minni hlutinn að gera ráð fyrir að samþykktar fjármálaáætlanir geri ráð fyrir að fjárheimildir séu nýttar. Ef það er ný stefna hjá íslenskum stjórnvöldum og hæstv. ríkisstjórn að nýta ekki fjárheimildir og nýta sér frekar skerðingarheimildir til að eyða fólki sjálfkrafa út úr kerfinu, til þess eins að koma um áramót og klappa sér á bakið fyrir að henda fólki ekki út úr kerfinu, þá þarf að greina frá þeirri stefnu vegna þess að allar umsagnirnar sem bárust um fjármálaáætlun í vor og fjárlagafrumvarp núna í haust gerðu ráð fyrir að þessar upphæðir myndu standast. Það kemur sem sagt fram í gögnum frá fjármálaráðuneytinu, sem voru fyrst að birtast hv. fjárlaganefnd eftir að beðið var um þau í tengslum við 3. umr., að í óbreyttu barnabótakerfi hefðu verið á yfirstandandi ári þessir 13,7 eða 13,9 milljarðar, tölur sem við þekkjum svo víða, en allt í einu kemur fram að það hafi bara staðið til að greiða 12,2 milljarða í rauninni á næsta ári vegna þess að undirliggjandi forsendur eru að það stefndi í að 2.600 manns myndu detta út úr kerfinu. Og árið 2024 væri upphæðin bara 11 milljarðar. Þessar tölur hef ég hvergi séð áður og er um algerlega nýja stefnu að ræða hjá ríkisstjórninni ef þetta er sýn hennar á barnabótakerfið.

Það er af þessari ástæðu, virðulegi forseti, að ég segi að þessi framsetning er bókhaldsbrella. Það er ekkert annað en bókhaldsbrella að reikna sig niður á fjölda fjölskyldna sem hefði verið hent út úr kerfinu vegna úreltra skerðingarmarka sem taka ekki mið af verðlags- og launaþróun og nota það sem viðmiðunargrunn.

Ég vil ljúka þessum hluta umræðunnar með því að benda á aðalatriðið, virðulegi forseti. Hæstv. ríkisstjórn og stjórnarliðar komast að hluta til upp með þessa umræðu vegna flækjustigs í kerfinu. Fólk skilur þetta ekki. Það er verið að nýta að hluta til þetta flækjustig til að villa fyrir fólki í umræðunni. En aðalatriðið er eftirfarandi: Það stóð til að greiða 13,9 milljarða kr. árlega í barnabætur 2023–2025 samkvæmt áætlunum stjórnvalda. Við þá upphæð bætast 600 millj. kr. á næsta ári, 1,4 milljarðar kr. árið 2024 samkvæmt nýjum tillögum ríkisstjórnarinnar við 3. umr. um fjárlagafrumvarpið. Þetta eru 2 milljarðar, ekki 5 milljarðar. Ríkisstjórnin hefur með öðrum orðum skapað væntingar langt umfram raunveruleikann um að styrkja eigi barnabótakerfið miðað við núverandi stöðu.

Þá vil ég geta þess í samhengi við þetta að við skoðum bara söguna í barnabótakerfinu þá er alveg ljóst að það hefur verið að drabbast verulega niður á undanförnum árum. Vegna þessa þá höfum við í Samfylkingunni ákveðið að leggja aftur fram breytingartillögu okkar um 3 milljarða kr. viðbótarfjármagn sem á að renna til barnabótakerfisins, svo að greiðsla úr ríkissjóði nemi 16,9 milljörðum, ekki 13,9 og það er 2,4 milljörðum kr. hærri upphæð en ríkisstjórnin leggur núna til við 3. umr. og hefur í fjölmiðlum verið stillt upp sem 5 milljarða kr. fjárveitingu.

Staðreyndin er sú varðandi barnabótakerfið á Íslandi og Bandalag háskólamanna hefur m.a. vakið athygli á er sú að ef við berum okkur saman við önnur lönd þá erum við mjög fjarri þeim. Í Danmörku eru barnabætur til að mynda 0,8% af landsframleiðslu. Í Finnlandi og Svíþjóð eru þær 0,6%. Með aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem eru nú lagðar til við 3. umr., og þykja vera stórsókn í barnabótakerfinu, verða greiðslur til barnabóta 0,37% af landsframleiðslu í þessu óbreytta kerfi sem ríkisstjórnin ber fyrir sig sem grunn sem aldrei átti að verða að veruleika reyndar samkvæmt framlögðum fjárveitingum. Þessi greiðsla væri komn niður í 0,3% af landsframleiðslu strax á næsta ári. En ef stefnan væri raunverulega sú að koma barnabótakerfinu í fyrra horf hér á Íslandi, eins og það var sögulega fyrir hrun, þá ættu viðbætur á næstu árum að miðast við að barnabótagreiðslur yrðu um 0,6% af landsframleiðslu. Heildargreiðslur úr kerfinu yrði þá 23 milljarðar, ekki 15,9 milljarðar.

Ég hvet enn og aftur áhugasama að skoða graf sem þessu tengist í nefndaráliti minni hluta þar sem er farið yfir hver þróunin hefur verið í barnabótakerfinu og við sjáum svart á hvítu að þetta er engin stórsókn í barnabótum.

Virðulegi forseti. Hér í lokin langar mig til að vekja athygli á örfáum atriðum sem ég ætla nú ekki að kalla minni háttar og eru vonandi ekki eins kerfislæg og í húsnæðis- og barnabótakerfinu sem ég var hér að ræða um. Það er í fyrsta lagi verklag í tengslum við fjárveitingar og fjárheimildaráðstafanir á vegum menningar- og viðskiptaráðuneytisins. 1. minni hluti gerir athugasemd við það verklag sem birtist hjá menningar- og viðskiptaráðuneytinu hvað varðar nýja fjárveitingu til Kvikmyndasjóðs sem var tilkynnt um í fjölmiðlum eftir að breytingartillögur höfðu borist fyrir 2. umr. um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2023. Í þessari tilkynningu til fjölmiðla frá ráðuneytinu kom fram að það ætti að bæta við 150 millj. kr. aukalega við framlög til Kvikmyndasjóðs til að koma til móts við niðurskurð sem átti annars að verða. Ég geri í raun enga athugasemd við að fjárveitingum til sjóðsins sé viðhaldið á milli ára. Í raun gerði minni hluti athugasemd við yfirvofandi niðurskurð Kvikmyndasjóðs en samkvæmt útskýringum ráðuneytis sem bárust fjárlaganefnd eftir að um þær var beðið, þ.e. við fengum ekki að vita af þessu að fyrra bragði, er áætlað að nýta fjármagn úr öðrum málaflokkum til að setja inn í Kvikmyndasjóð. Það kemur m.a. fram í minnisblaði til hv. fjárlaganefndar, með leyfi forseta:

„Þar sem þetta fjármagn er vistað á öðrum málaflokkum en Kvikmyndasjóður þá liggur fyrir að það verður óskað eftir millifærslunni á fjármagninu í fjáraukalögum fyrir árið 2023.“

Þetta er mjög sérstök framsetning, virðulegi forseti. Nú erum við ekki enn þá búin að samþykkja fjárveitingar fyrir næsta ár og menningar- og viðskiptaráðuneytið er búið að taka þá ákvörðun að biðja um breytingu í fjárauka á næsta ári út frá fjárheimildum sem er ekki einu sinni búið að samþykkja í þinginu fyrir næsta ár. Ég vek athygli á því í þessu samhengi að lög um opinber fjármál eru mjög skýr um að fjáraukalög eigi aðeins að nýta til að mæta óvæntum og ófyrirséðum atburðum. Ef það liggur fyrir, virðulegur forseti, áður en fjárlagafrumvarp fyrir 2023 er samþykkt, að þetta fjármagn verði flutt af umræddum liðum til Kvikmyndasjóðs, þá á að leggja fram breytingartillögu þess efnis. Við í fjárlaganefnd höfum heldur ekki fengið að vita á hvaða verkefnum þessar millifærslur munu bitna, af því að við vitum að þetta er ekki ný fjárheimild.

Þá vil ég líka gera athugasemd við að það hafi verið tekin ákvörðun milli 2. og 3. umr. að falla frá þeim breytingum sem hæstv. ríkisstjórn hafði boðað á fiskeldisgjaldinu á næsta ári. Ríkissjóður er að verða af rúmum hálfum milljarði króna vegna þessa á næsta ári og ég tel í rauninni ekki vera fullnægjandi rök fyrir því að fresta breytingunni. Það hafa líka borist misvísandi upplýsingar inn í þingið og bara rétt í þessu, í fyrri umræðum, komu fram mjög misvísandi upplýsingar um hver ástæðan á bak við frestun þessarar gjaldtöku er. Forsvarsmenn eins flokks í þessari ríkisstjórn vilja meina að þetta sé vegna þess að endurskoðunarvinna sé að eiga sér stað í kerfinu. Hæstv. innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins kom upp í pontu fyrr í dag og talaði um að ástæðan fyrir þessu hefði verið að breytingartillagan hafi komið of seint frá hæstv. matvælaráðherra. Þetta þarf að skýra vegna þess að það er auðvitað mjög alvarlegt að það sé ekki vitað af hverju þessi breyting kemst ekki í gegn og af hverju það er misræmi í málflutningi hæstv. ráðherra í ríkisstjórn um hver ástæðan er. Það hljómar hálfpartinn eins og það sé verið að reyna að flytja ábyrgðina yfir á staka ráðherra í staðinn fyrir að segja bara hvað býr að baki. Við höfum enn þá ekki fengið upplýsingar um þetta.

Nú er ég alveg að klára tímann minn þannig að ég ætla bara að nefna stuttlega hér í lokin að ég geri líka athugasemd við þessa hröðu vinnslu á síðustu metrunum á frumvarpi sem á að liggja í rauninni fyrir í upphafi vetrar. Þetta gerir það að verkum að það er erfitt fyrir minni hlutann að komast yfir ákveðnar breytingar. Ég hef áhyggjur, eins og fleiri hafa nefnt hér úr minni hlutanum, til að mynda af þeirri breytingu sem á að gera á heimild til að ráðstafa loftslagsheimildum í samráði við ráðherra loftslagsmála til að mæta skuldbindingum. Þetta er einfaldlega breyting sem enginn tími gafst til að rýna í nefndinni og er að koma inn á síðustu stundu. Ég sé eiginlega ekki af hverju þetta þarf að koma svona seint, virðulegi forseti.