Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

tóbaksvarnir.

530. mál
[20:16]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir hans framsögu á frumvarpi sem hefur marga ágæta þætti en það sem er vont er að hér er komið frumvarp sem ætlar að banna Salem og Capri bláan. Í rökstuðningnum eru blessuð börnin í forgrunni, sem væri gott og blessað og sjálfsagt ef hægt væri að færa rök fyrir því að Salem, Capri blár og aðrar mentólsígarettur hefðu einhvern tímann gert börnum eitthvað umfram aðrar sígarettutegundir, en svo er einfaldlega ekki. Í frumvarpinu er rökstuðningurinn nefnilega vægast sagt rýr. Þar er eingöngu vísað til þess að líkur séu á að tóbaksneysla hefjist ef tóbaksvörur hafi einkennandi og bragðbætandi bragð annað en af tóbaki. Það má vel vera. En, forseti, afleiðingar af þessu frumvarpi eru ekki að bannaðar verði í stórum stíl jarðaberja- eða súkkulaðisígarettur, sem væri vel skiljanlegt að væru girnilegri börnum en æskilegt væri. En nei, það er verið að banna mentólsígarettur sem tæplega fjórðungur reykingafólks á Íslandi kýs að reykja umfram aðrar tegundir, mentólsígarettur sem er ekki nokkur samstaða um á meðal reykingafólks að séu eitthvað bragðbetri en aðrar tegundir, enda ekki nokkur einasti einstaklingur sem ég veit um sem byrjaði að reykja eingöngu af því að í boði voru mentólsígarettur. Nei, það eru ekki unglingar sem eru að flykkjast til að eiga gæðastundir með mentólsígarettunum. Það eru Jónína Jónudóttir og vinkona hennar, Dóra Dórudóttir, sem fara út á svalir í sínar gæðastundir í saumaklúbbnum með Capri bláum. Og við ætlum hér að taka þær frá þeim og fjórðungi reykingafólks á Íslandi með litlum eða engum rökstuðningi. Ég hef aldrei reykt þessa sígarettur og kannski betra að taka það fram hér skýrt að þetta klagar því ekkert upp á mig. Verra er að ég myndi giska á og er reyndar nokkuð viss um að ekki nokkur einasti aðili sem kom nálægt þessari löggjöf í Brussel hefur nokkurn tímann fengið sér sígó. Það getur ekki verið fyrst því er haldið fram að mentólbragð sé svo bragðbætandi að um slíkan mun sem sé að ræða. Allir sem hafa reykt vita að það stenst enga skoðun. Lýðheilsa, eins og hæstv. ráðherra kemur vissulega inn á, getur að sjálfsögðu skipt máli. Gerum ekki lítið úr henni, það er enginn að gera það. En hér er ekki verið að banna sígarettur heldur eina bragðtegund sem er ekki hægt að færa rök fyrir að sé hættulegri en aðrar bragðtegundir. Það er eins og við stæðum hér og værum ekki að banna sykurlausa drykki en værum að ákveða að allir þeir sem kjósa Coke Zero umfram Pepsi Max þurfi samt að gjöra svo vel og drekka Pepsi Max bara af því bara.

Forseti. Því miður finnst mér þetta vera einhvers konar sýndarlýðheilsuaðgerð sem er algerlega órökstudd. Það er einfaldlega engin rökrétt né lögfræðileg stoð fyrir því banni sem frumvarpið felur í sér. Ég legg því til, forseti, að í hv. velferðarnefnd verði frumvarpinu breytt á þann hátt að það haldi sér hvað varðar það að banna sígarettur sem eru bragðbætandi. Fínt. Bönnum jarðarberja- og súkkulaðisígarettur hvers konar en mentólbragðið verði fellt þar undan enda ekki nokkur rökstuðningur fyrir því að það sé yfir höfuð bragðbætandi né að tóbaksneysla aukist með veru mentólbragðs á markaðnum. Þar er ég bæði að vísa í það frumvarp sem liggur hér fyrir og tilskipunina frá Evrópusambandinu sem frumvarpið vísar til. Það er enginn rökstuðningur fyrir því að mentól sé þessi póstur sem fullyrt er um. Sem alger þrautavarakrafa, forseti, ef hv. velferðarnefnd vill ekki undanskilja mentólbragðið sem hún ætti með réttu að gera, legg ég til, eins og kemur fram í fyrirvara þingflokks Sjálfstæðisflokksins við málið, að gildistöku bragðbannsins sé frestað í sex ár að lágmarki. Frumvarpið gerir ráð fyrir að bann við bragðefnum taki gildi einungis 12 mánuðum eftir gildistöku laganna. Þarna er gengið mun harðar fram en í gerð Evrópusambandsins. Þar, þar sem hlutdeild sígarettna með bragðefnum var yfir 3%, var veittur sex ára aðlögunartími. Hér á landi þar sem hlutdeild bragðefnasígarettna er tæplega fjórðungur á hins vegar eingöngu að veita 12 mánaða aðlögunartíma og alveg órökstutt í frumvarpinu hvers vegna sami aðlögunartími er ekki lagður til og í Evrópu.

Einnig má benda á að í frumvarpinu er ekki lagt mat á áhrif bannsins á lægri tóbaksgjöld til ríkisins en gjaldið af mentólsígarettum er talið nema rúmum milljarði ár hvert miðað við áætlaða 23,5% eða tæplega fjórðungsmarkaðshlutdeild mentólsígarettna. Ríkissjóður hefur af því beina fjárhagslega hvata að ganga ekki lengra í innleiðingunni með brattri innleiðingu. Einnig vil ég nefna að frumvarpið gerir ráð fyrir viðamiklu hlutverki ÁTVR við eftirlit og framkvæmd eftirlits. Það er reyndar búið að fela Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að sjá um eftirlit með nikótínvörum á meðan ÁTVR á að bera ábyrgð á eftirliti með tóbaksvörum. Neytendastofa ber svo ábyrgð á eftirliti með enn öðrum neytendavörum. Eðlilegra væri að einn eftirlitsaðili bæri ábyrgð á eftirliti með öllum neytendavörum fyrir utan hversu óeðlilegt það er að ÁTVR sé falið að hafa eftirlit með sjálfu sér.

EES-samningurinn er mikilvægasta viðskiptasamningssamband sem við Íslendingar eigum en, forseti, stundum er það svo að þær innleiðingar sem okkur er boðið upp á hér eru bara helber vitleysa eins og ég tel mig hafa rakið hér. Einnig er það svo að tilskipunin sem þetta frumvarp byggir á er frá árinu 2014. Hún er sem sagt átta ára gömul og er að mörgu leyti úrelt og á þeim tíma hafa reykingar farið minnkandi þrátt fyrir að þessi innleiðing hafi ekki átt sér stað. Það er vegna forvarna, forseti, eins og kom fram í umræðum hérna áðan því að upplýst umræða og forvarnir eru alltaf betri en boð og bönn, ég tala nú ekki um ef forsendur banns eru jafn órökstuddar og hér er raunin.

Þess vegna endurtek ég hér að lokum að ég hvet hv. velferðarnefnd og þingheim allan til að virða að vettugi þessa innleiðingarkröfu um órökstutt bann við mentólsígarettum. Og, forseti, ef Eftirlitsstofnun EFTA ætlar að kvarta yfir því má beina öllum kvörtunum til mín. Það er vel þess virði í staðinn fyrir að ég geti treyst því að saumaklúbbar landsins geta áfram fengið sínar Capri bláar í friði.