Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 51. fundur,  16. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[11:54]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Útgjöldin eru stjórnlaus, þau eru fordæmalaus. Við erum að upplifa fjárlagahalla, ekki bara núna heldur til næstu fimm ára. Það er verið að henda þessu á framtíðarkynslóðir. Þessi mikli tekjuauki sem hefur verið á milli ára, sem fyrst og fremst stafar af viðskiptahalla, er ekki notaður til að greiða niður skuldir. Þessi fjárlög eru ekki beint beysin og ég vil benda á það sem Samtök atvinnulífsins hafa verið að segja. Seðlabankinn, ríkisstjórnin og aðilar vinnumarkaðarins mynda þrjá arma hagstjórnarinnar. Saman bera þeir ábyrgð á verðstöðugleika í landinu. Til þess að vel takist til þurfa allir að leggja sitt af mörkum og róa í sömu átt og það þyngir róður hinna ef einhver vanrækir hlutverk sitt og dugar skammt að skella skuldinni á aðra. Síðan benda Samtök atvinnulífsins á það að þegar kemur að því að tryggja verðstöðugleika í landinu þá veltir ríkisstjórnin ábyrgðinni alfarið yfir á herðar Seðlabankans og aðila vinnumarkaðarins. Í því er holur hljómur, segja Samtök atvinnulífsins. Undir þau orð vil ég taka.