Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 51. fundur,  16. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:01]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Alþingi fer með fjárveitingavaldið, ekki framkvæmdarvaldið, og ekki ráðherrar. Þannig á það að vera að formi til og að efni til, í orði og á borði. Ég vil taka undir það, sem fram kom í máli hv. þm. Kristrúnar Frostadóttur hér áðan, að hér við þessa fjárlagagerð virðist ríkisstjórnarræðið orðið nær algert. Það er nánast búið að kippa úr sambandi þeim ferlum sem gert er ráð fyrir þegar kemur að umsagnarferli og vandaðri lagasetningu við fjárlagagerð vegna þess að það er ríkisstjórnin sem ræður, kastar inn tillögum á síðustu stundu. Fyrir vikið erum við í efnahags- og viðskiptanefnd t.d. að afgreiða hér á hundavaði, á tveimur, þremur sólarhringum, grundvallarbreytingar á barnabótakerfinu, breytingar sem eru vissulega til bóta en svona á ekki að vinna þetta. Svona getur Alþingi ekki unnið og við verðum að taka okkur á í þessum efnum og gera þetta öðruvísi við næstu fjárlagagerð. Ég held við hljótum öll að vera sammála um það.