Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 51. fundur,  16. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:30]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Hér fóru hv. þingmenn með stór orð. Þeir máttu þó eiga það að þeir voru alltaf með fyrirvara á þessari tillögu, sem var borin fram hér áðan, sem var nú fyrst og fremst til þess að auka gagnsæi í því fyrirkomulagi sem við erum með. Nú ætla ég, virðulegur forseti, að fylgjast með þeim hv. þingmönnum sem hér töluðu þegar við förum í þær aðgerðir sem við þurfum að fara í til að ná þessum háleitu loftslagsmarkmiðum. Ég mun fylgjast vel með því. Það er ekki nóg að vera með stór orð, því að við erum að fara í stóra vegferð og það hefur vantað svolítið upp á það að hv. þingmenn hafi stutt við þær aðgerðir þegar þær hafa komið hér til atkvæða. Ég vil segja eitt við hv. þingmenn Miðflokksins: Það er gott að skoða söguna, sjá hverjir hófu þessa vegferð. Það vantaði ekki stóru orðin í París á sínum tíma þegar þáverandi hæstv. forsætisráðherra gekk fram og var með stórar yfirlýsingar ásamt hæstv. umhverfisráðherra (Forseti hringir.) þeirrar ríkisstjórnar og hæstv. utanríkisráðherra þeirrar ríkisstjórnar. Ég hlakka til, virðulegi forseti, að rifja upp þessa sögu (Forseti hringir.) því að hún hefur hugsanlega gleymst.