Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 51. fundur,  16. des. 2022.

úrvinnslugjald.

572. mál
[13:59]
Horfa

Flm. (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002 (hringrásarhagkerfið, umbúðatafla, reiknireglur, viðaukar). Nefndin fjallaði um málið, fékk á sinn fund gesti og umsagnir bárust. Greint er frá því í nefndaráliti. Nefndarálitið liggur frammi.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002, vegna gildistöku laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um úrvinnslugjald, nr. 103/2021, sem öðlast gildi 1. janúar 2023. Málið tengist einnig breytingum sem lagðar eru til í frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2023 (2. mál). Grunnforsenda innheimtu úrvinnslugjalds samkvæmt lögum nr. 103/2021 er að viðaukar við lög um úrvinnslugjald verði uppfærðir og tilteknar breytingar gerðar á einstökum ákvæðum laganna. Í frumvarpinu eru nauðsynlegar breytingar lagðar til á ákvæðum laga um úrvinnslugjald og viðaukum þeirra. Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar leggur til breytingar á 1. og 19. gr.

Í 19. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á viðauka XVIII um álagningarstofn úrvinnslugjalds skv. 2. málsl. 2. mgr. 7. gr. a laga um úrvinnslugjald. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að sérstök vandkvæði væru bundin við innleiðingu ákvæðisins í tölvukerfi innflytjenda. Tíminn fram að gildistöku frumvarpsins væri ekki nægur til þess að hugbúnaðarhúsunum yrði kleift að ljúka þeirri vinnu. Að óbreyttu skapist því hætta á að tregðu gæti í innflutningi fyrstu mánuði ársins. Til þess að tryggja hugbúnaðarhúsunum og Skattinum svigrúm til nauðsynlegra aðlagana á tölvukerfum og prófana leggur meiri hlutinn til að gildistöku 19. gr. frumvarpsins verði frestað um tvo mánuði, eða til 1. mars 2023.

Í 1. gr. frumvarpsins er að finna ný tollskrárnúmer vegna gler-, málm- og viðarumbúða. Samhliða frestun á gildistöku 19. gr. er rétt að fresta gildistöku þess ákvæðis einnig. Breytingin hefur ekki áhrif á álagningu úrvinnslugjalds vegna pappa-, pappírs- og plastumbúða, sem fer samkvæmt gildandi 6. mgr. 7. gr. a laga um úrvinnslugjald. Haft var samráð við ráðuneytið, Skattinn, Úrvinnslusjóð og Samtök verslunar og þjónustu við gerð breytingartillögunnar. Þá eru lagðar til minni háttar eða lagatæknilegar breytingar sem þarfnast ekki sérstakrar umfjöllunnar. Vísast að öðru leyti til ítarlegri umfjöllunar um breytingartillögur í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.

Að framansögðu virtu leggur meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir.

Undir nefndarálit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Ágúst Bjarni Garðarsson, Guðbrandur Einarsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Jóhann Páll Jóhannsson, Njáll Trausti Friðbertsson og Orri Páll Jóhannsson.